Gunnar fær frest til fimmtudags

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Stjórn Fjármálaeftirlitsins lauk fyrir stundu fundi sínum sem staðið hefur í allt kvöld um mál Gunnars Andersen, forstjóra FME. Stjórnin ákvað að verða við kröfu lögmanns Gunnars um lengri andmælafrest, og fær hann nú frest fram á fimmtudagskvöldið 23. febrúar.

Stjórn FME hefur einnig svarað þeim fimm spurningum sem Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars lagði fyrir hana fyrr í dag. Að sögn Aðalsteins Leifssonar, stjórnarformanns FME, mun stjórnin ekki opinbera svör sín við spurningunum.

Gunnari var tilkynnt með bréfi síðasta föstudag að til stæði að segja honum upp og var honum gefinn frestur út daginn í dag til andmæla. Lögmaður Gunnars krafðist þess hins vegar með bréfi í dag að sá frestur yrði lengdur enda væri aðeins um einn virkan dag að ræða síðan uppsögnin var tilkynnt.

Aðalsteinn segir hinsvegar að stjórn FME hafi fundað með Gunnari síðastliðinn fimmtudag þar sem honum voru boðin starfslok, en samkomulag hafi ekki náðst og því hafi honum verið tjáð að hans mál væru til skoðunar með tilliti til þess að segja upp ráðninga samningi hans og honum veittur andmælafrestur. Aðalsteinn segir auk þess að Gunnar hafi í gegnum tíðina haft mörg tækifæri til að andmæla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert