„Vandi þeirra sem hafa séð eignir sínar rýrna eftir hrun bankakerfisins er tilfinnanlegur. Staða þeirra sem tóku verðtryggð lán í íslenskum krónum hefur eðli máls samkvæmt versnað vegna mikillar verðbólgu,“ segir Illugi Gunnarsson alþingismaður í grein í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Illugi m.a. að þessi hópur sé stór en staða einstaklinga innan hans sé mjög misjöfn. Sumir séu velmegandi, sumir hafi það ágætt, aðrir séu verulega illa stæðir. Sumir eigi auðvelt með að standa í skilum með lánin, öðrum sé það orðið lífsins ómögulegt. Það sé við því að búast að það æri alla og særi að horfa á að þeir fái helst leiðréttingar sem tóku hin ólöglegu gengistryggðu lán.
„Aldrei verður hægt að leysa þessi vandamál þannig að allir verði ánægðir og eina varanlega lausnin felst í því að tekjur hækki, atvinnuleysið minnki og fasteignamarkaðurinn taki við sér. En við þurfum að horfast í augu við vanda þeirra sem nú eru verst staddir og finna skynsamleg og raunhæf úrræði fyrir þann hóp. Ef við gerum það ekki mun það koma í bakið á okkur,“ segir Illugi í niðurlagi greinar sinnar sem lesa má í heild í blaðinu í dag.