Ísland kann að vera sigurvegari kreppunnar til skamms tíma litið, en til lengri tíma er hugsanlegt að evruaðild Írlands muni koma því fram fyrir Ísland. Þetta segir blaðamaður Wall Street Journal, Richard Barley, í grein í dag.
„Hvort komst betur út úr kreppunni, Ísland eða Írland?“ spyr Barley í grein á vef Wall Street Journal í dag. Margir myndu segja Ísland, í kjölfar þess að Fitch hækkaði lánshæfismatið sem skaut því fram á við á meðan Írland er enn í ruslflokki. Þetta kann að vera rétt niðurstaða til skamms tíma, segir Barley.
Hann rekur það að fjármálakerfi beggja landa hafi hrunið en vegna þess hve gríðarstórir íslensku bankarnir voru hafi ríkisstjórnin ekki haft neitt val um annað en að láta þá falla. Það hafi hins vegar verið ógæfa Írlands að þar voru bankarnir ekki nema fjórum sinnum landsframleiðslan, rétt svo nógu „litlir“ til að hægt væri að bjarga þeim.
Bæði löndin hafi glímt við svipaðar afleiðingar bankahrunsins. Endurreisn bankanna hafi kostað um 45% af vergri landsframleiðslu á Íslandi en um 40% á Írlandi. Skuldir ríkisins séu í dag ögn lægri á Íslandi, þó ekki mikið, en stærsti munurinn sé sá að hagvöxtur hafi verið 3% á Íslandi árið 2011 en aðeins 1% á Írlandi.
„En Íslandi bíður enn prófsteinn,“ segir Barley. Gjaldeyrishöftin séu mikil hindrun fyrir fjárfestingu í landinu en að sama skapi myndi það þýða gjaldeyrisflótta verði höftunum aflétt. Þá gæti Icesave-deilan enn aukið á skuldir ríkissjóðs. Til lengri tíma litið sé því framtíðarhagvöxtur á Íslandi meiri vafa undirorpinn.
Írlandi hafi hins vegar verið þrengri skorður settar í fyrstu viðbrögðum við hruninu vegna evrunnar. Þar hafi efnahagsbatinn liðið fyrir slæma krísustjórn á evrusvæðinu. Til lengri tíma gæti aðild að evrunni hins vegar hjálpað Írum við að laða til sín fjárfestingu og auka útflutning. Strax á árinu 2011 hafi orðið 30% fjölgun fyrirtækja sem fjárfestu á Írlandi í fyrsta skipti. Þegar fram í sæki geti það ráði úrslitum.