Jón Gnarr borgarstjóri tók daginn snemma í morgun og kynnti sér sorphirðu borgarinnar. Var hann mættur klukkan sex í höfuðstöðvar sorphirðunnar í Gufunesi til að heilsa upp á mannskapinn sem kemur þá til vinnu.
Þar klæddist borgarstjóri einkennisbúningi sorphirðunnar en síðan var förinni heitið í Kvíslahverfið í Árbæ með vöskum flokki sorphirðufólks.
Borgarstjóri gekk í rúman klukkutíma um Kvíslirnar og trillaði tunnum í gríð og erg. Var ekki laust við að honum væri farið að hitna örlítið í lopapeysunni góðu með merki borgarinnar á sem hann klæðist við hin ýmsu tækifæri. „Þetta er greinilega mjög erfitt starf en það kemur mér á óvart hversu hratt og snurðulaust þetta gengur fyrir sig,“ er haft eftir Jóni Gnarr á vef Reykjavíkurborgar.
Í flokknum sem borgarstjóri gekk til liðs við voru engir aukvisar, segir í frétt borgarinnar. Bílstjórinn Ísak Guðjónsson er fjórfaldur Íslandsmeistari í ralli, Edda María Birgisdóttir spilar með úrvalsdeildarliði Stjörnunnar í knattspyrnu og bræðurnir Egill og Ari Arnarssynir spila golf í frístundum. Öll hafa þau unnið lengi hjá sorphirðu borgarinnar enda eru dæmi um að fólk sé þar áratugum saman. Þau þekkja því marga í hverfum borgarinnar og árrisulir íbúar þekkja þau. Enda spurði einn þegar hann rak augun í borgarstjóra. „Hver er þessi nýi sem er með ykkur?“
Sorphirðuteyminu kom saman um að veðrið hefði sett mikinn strik í reikninginn í vetur en oft hefur viðrað mjög illa til sorphirðu og færðin verið þung. „Við höfum stundum lent aðeins á eftir áætlun og sumir dagar hafa verið mjög erfiðir,“ segir Ísak í frétt borgarinnar. „Það getur verið býsna erfitt að trilla tunnunum í gegnum skaflana.“
Þeim ber saman um að fólk sé almennt farið að flokka sorp meira og margir séu komnir með bláu tunnuna og fái sér þá einnig grænu tunnuna fyrir almennt heimilissorp en hirt er úr henni á 20 daga fresti. Þegar fólk byrjar að flokka sorpið fer mun minna í almenna heimilissorpið og þá er hentugt að færa sig í 20 daga hirðu. Það kostar einnig talsvert minna.
„Ég held að fólk sé orðið mjög meðvitað um hvað fer í ruslið og hvernig eigi að flokka það. Við höfum einnig tekið eftir því að fólk hefur verið ötult við að moka snjó frá sorpgerðunum svo við komumst að þeim. Við kunnum vel að meta það,“ segir Ísak.
Eftir rúman klukkutíma var borgarstjóri orðinn bullsveittur og móður af hlaupunum. Hann pústaði og sagði: „Þetta er eins og besta crossfit. Maður kæmist fljótt í gott form í þessari vinnu.“
Samt er Árbærinn fremur þægilegt hverfi til hirðingar sorps. Þyngstu hverfin í sorphirðunni eru miðbærinn og gamli vesturbærinn en þar þurfa sorphirðumenn borgarinnar sums staðar að trilla með tunnurnar langar vegalengdir og glíma við erfiðar kjallaratröppur og mikil þrengsli.
Hjá sorphirðu Reykjavíkur vinna að jafnaði 45 manns.