Langtímaatvinnulausum fjölgar

Lengd atvinnuleysis 1991 - 2011.
Lengd atvinnuleysis 1991 - 2011. www.hagstofa.is

Á árinu 2011 voru 180.000 á vinnumarkaði eða 80,4% atvinnuþátttaka. Fjöldi starfandi var 167.300 hlutfall þeirra af vinnuafli var 74,7%. Árið 2011 voru að meðaltali 12.700 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 7,1% vinnuaflsins. Árið 2011 höfðu um 3.400 manns verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eða 26,5% atvinnulausra. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofu Íslands.

Atvinnuleysið er því nokkru minna en árið 2010 þegar það mældist mest, eða 7,6% og fækkaði atvinnulausum um 1.000 manns. Árið 2011 var atvinnuleysi að meðaltali 9% í Reykjavík, 7% í nágrenni Reykjavíkur og 5% utan höfuðborgarsvæðisins. Atvinnuleysi mældist 7,8% hjá körlum og 6,2% hjá konum.

26,5% án vinnu í ár eða lengur

Af þeim sem voru atvinnulausir árið 2011 voru að jafnaði 2.400 manns búnir að vera atvinnulausir í 1-2 mánuði eða 19,2% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu 2.800 manns verið atvinnulausir í 1-2 mánuði árið 2010 eða 20,8% atvinnulausra. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir.

Árið 2011 höfðu um 3.400 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 26,5% atvinnulausra. Árið 2010 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 2.800 manns eða 20,3% atvinnulausra.

Árið 2011 voru 1,4% af þeim sem voru á vinnumarkaði atvinnulausir í 1-2 mánuði en 1,6% árið 2010. Langtímaatvinnulausir voru 1,9% vinnuaflsins árið 2011 samanborið við 1,5% árið 2010. 

Heildarvinnustundir 40 stundir á viku
Á árinu 2011 var meðalfjöldi vinnustunda á viku 40 klukkustundir samanborið við 39,5 árið 2010. Þegar litið er á þróun vinnustunda hjá körlum frá árinu 1991 til 2011 má sjá að vinnustundum þeirra hefur fækkað nokkuð eða úr 51,3 klukkustund í 44,1. Á sama tímabili hafa vinnustundir kvenna verið tiltölulega stöðugar eða í kringum 35 klukkustundir. Vinnustundir kvenna árið 2011 voru 35,4.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert