Leiðbeinandi tilmæli skortir

Frá miðbæ Reykjavíkur.
Frá miðbæ Reykjavíkur. Árni Sæberg

Samtök lánþega hafa sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að nauðsynlegt sé að gefa út leiðbeinandi tilmæli um hvernig lánþegum beri að haga kröfum sínum í kjölfar skýrrar niðurstöðu Hæstaréttar um ólöglega afturvirkni í endurútreikningum gengistryggðra lána.

„Er þar helst átt við endurheimt verðmæta og eigna, sem á grundvelli ólögmætrar reiknireglu hafa verið tekin af lánþegum. Dómur Hæstaréttar er skýr og felur niðurstaða dómsins í sér svar við spurningunni um lögmæti afturvirks vaxtaútreiknings á öllum ólöglega gengistryggðum lánum, en rétturinn hafnar slíkri afturvirkni með skýrum og afdráttarlausum hætti,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að fjölmargar spurningar vakni í kjölfar dómsins og þá ekki síst um endurgreiðslu á eftirstöðvum fullgreiddra lána, endurheimt verðmæta vegna fullnustuaðgerða sem byggðar voru á ólögmætri reiknireglu, forvarnir gegn frekari innheimtu krafna sem byggjast á ólögmætri reiknireglu og mótbárur við fyrirhuguðum eða þegar framkvæmdum skráningum á vanskilaskrá Lánstrausts, sem á sér stoð í ólögmætri reiknireglu.

Samtök lánþega hafa sett á heimasíðu sína skjöl sem nota má til að senda bönkum og fjármálastofnunum til að tryggja réttarstöðu lánþega og skýra kröfur: http://lanthegar.is/?p=13382

Samtökin beina ennfremur þeim óskum óskum til fjármálafyrirtækja og Samtaka fjármálafyrirtækja fyrir hönd aðildarfyrirtækja, að stöðva nú þegar allar innheimtuaðgerðir þar til kröfur hafa verið leiðréttar og þeim leiðréttu kröfum komið til lánþega með skýrum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka