Stjórn FME fundar í kvöld

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Stjórn Fjármálaeftirlitsins kemur saman í kvöld til að funda um mál Gunnars Andersen, forstjóra FME. Að sögn Aðalsteins Leifssonar, formanns stjórnarinnar, verður m.a. rætt um kröfu lögmanns Gunnars um lengri frest til að skila inn andmælum. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort farið verður að þeirri beiðni.

Skúli Bjarnason, lögfræðingur Gunnars, fór í dag fram á það í bréfi fyrir hans hönd að andmælafrestur yrði lengdur. Gunnari var tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn á föstudag og gefinn andmælafrestur til dagsins í dag. Það þýðir að honum var aðeins gefinn einn virkur dagur til að skila greinargerð, en það telur hann of stuttan tíma, að því er fram kemur í bréfi Skúla.

Gunnar mætti sjálfur til vinnu í morgun, enda hefur honum ekki verið sagt upp, að sögn Skúla. Gunnar hefur gegnt stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins í tæp þrjú ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert