750 milljarðar felldir niður

Skuldir fyrirtækja, auðmanna og heimilanna í landinu hafa verið felldar niður í stórum stíl frá hruni, um nærri 750 milljarða króna. Tæpur þriðjungur er vegna heimilanna í landinu, afgangurinn eru skuldir fyrirtækja og auðmanna. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Áætlað hefur verið, að kostnaður við niðurfærslu skulda heimila með verðtryggð lán nemi um 200 milljörðum króna. Deilt er um hversu raunhæfar slíkar tillögur eru og bent á að slík niðurfelling gæti orðið fjármálastofnunum um megn.

Þær hafa hins vegar fellt niður gríðarháar skuldir frá hruni, nærri 750 þúsund milljónir. Einungis um þriðjungur þeirra niðurfellinga er vegna heimilanna í landinu, að því er fram kom í fréttum Sjónvarpsins í kvöld.

Þessi upphæð er mun lægri en niðurfellingar skulda fyrirtækja og eignarhaldsfélaga, sem mörg hver voru og eru enn í eigu útrásarvíkinga. Í fréttum Sjónvarps kom fram að fimm einstaklingar og fyrirtæki fengu meira niðurfellt en öll heimilin í landinu.

Arionbanki felldi niður 30 milljarða skuld 1998 ehf., sem var að stórum hluta í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Landsbankinn felldi niður allt að 50 milljarða skuld Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum.

Arionbanki felldi niður skuldir Kjalar, eignarhaldsfélags Ólafs Ólafssonar, upp á 88 milljarða króna.

Landsbankinn felldi niður 20 milljarða skuld Guðmundar Kristjánssonar í Brimi.
Skuldir N1 upp á 17 milljarða voru felldar niður.

Þessar niðurfellingar eru samtals 205 milljarðar króna eða átta þúsund milljónum meira en heimilin hafa fengið fellt niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert