Börn sem búa við bágindi í efnahag, menntun, menningu eða heilsufari lenda oft í svokallaðri „óhamingjugildru“. Hún verður til þegar slíkar aðstæður foreldra og misvel búið skólakerfi ná ekki að tryggja barni vernd og viðspyrnu til að mæta áraunum hversdagsins. Þetta verður m.a. viðfangsefni málþings um framtíð barna sem fram fer á fimmtudag.
Það er Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd og Lionshreyfingin á Íslandi sem efna til málþingsins með yfirskriftinni „Framtíð barna – Forvarnir eitt, tvö og þrjú!“.
Málþingið verður haldið í Háskóla Íslands – Öskju, stofu 132 á 1. hæð, milli kl. 16:30 og 18:30. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Á málþinginu verður fjallað um valin málefni sem eru viðkvæm og brennandi úrlausnarefni sem varða börn og fjölskylduvernd, sjá nánar meðfylgjandi dagskrá. Eitt af því sem ber á góma er svokölluð óhamingjugildra. Um hana segir m.a.:
Börn sem búa við bágindi í efnahag, menntun, menningu eða heilsufari lenda oft í svo kallaðri „óhamingjugildru“. Hún verður til þegar slíkar aðstæður foreldra og misvel búið skólakerfi ná ekki að tryggja barni vernd og viðspyrnu til að mæta áraunum hversdagsins. Mögnunarferli fer af stað þar sem staða þeirra veikist við hverja ágjöf sem þau verða fyrir.
Með því að ná til þessa hóps barna og ungmenna, skapa þeim tækifæri og gera þau læs á lífið, má opna þeim leið út. Í hópi barna, sem hafa þannig á einhvern hátt veikari stöðu í samfélaginu leynast oft hæfustu einstaklingarnir, þ.e. þau sem hafa í raun innri seiglu, áræði og sköpunarkraft en sá kraftur ekki verið leystur úr læðingi. Með minni háttar viðbótar stuðningi, athygli og ræktun geta þessi börn oft jafnvel náð lengra en meðal-jóninn. Að losa þau úr jaðarstöðu getur leitt þau til sigurs í eigin lífi og sem samfélagsþegna.
Það þjónar því forvarnartilgangi bæði fyrir einstakling og samfélag að rjúfa keðjuverkun sem ekki aðeins bitnar á börnum heldur getur erfst í félagslegum skilningi til næstu kynslóðar. Leiðirnar til að losa þar um eru þekking, rannsóknir, tilraunaverkefni, fræðsla, hnitmiðaður stuðningur og átaksverkefni. Í verkefninu Læsi á lífið er athygli sérstaklega beint að markhópum barna í skóla-, félags- og heilbrigðiskerfi og barnavernd.
Ríkissjóður hefur nú ákveðið að verja umtalsverðum fjárhæðum til forvarna gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Brúðuleikhús Blátt áfram er eitt af þeim verkefnum sem valin hafa verið og verður notað sem fræðsluefni fyrir 2. bekk grunnskóla á öllu landinu. Þetta verkefni verður kynnt á málþinginu, ásamt fleiri forvarnarverkefnum sem beint er gegn óhamingjugildru ungs fólks.