Fertug kona var í dag dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir að hafa stolið fjórum bókum og mat úr 10-11 og Nettó fyrir alls rúmar 11 þúsund krónur. Eins var hún dæmd fyrir að hafa talað í farsíma undir stýri. Játaði konan brot sín skýlaust.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að konan hefur áður orðið uppvís að þjófnaði en hún var sektuð fyrir þjófnað 2008. Hún var dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi 2009 fyrir þjófnað og aftur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi 2010 fyrir þjófnað og var fyrri dómurinn dæmdur með. Með brotum þeim sem hún var í dag dæmd fyrir rauf hún skilorð og er því sá dómur dæmdur með.
Konan stal í nóvember 2010 matvöru fyrir 2.496 krónur í verslun 10-11 og í nóvember í fyrra fjórum bókum í Nettó fyrir 8.912 krónur. Eins hafði hún notað farsíma er hún ók bifreið í mars 2010.
Er henni einnig gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, rúmar 75 þúsund krónur.