Hefur ekki áhyggjur af sjávarútveginum

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann hefði ekki áhyggjur af stöðu íslensks sjávarútvegs. Fór hann yfir töluleg gögn í því sambandi og sagði að greinin hefði nú endurheimt sína fyrri fjárhagslegu stöðu frá því fyrir hrun. Verð á mörkuðum væru há, afkoma sjávarútvegsins góð og þá sköpuðust auknar tekjur af makríl- og loðnuveiðum.

Ráðherrann var með því að svara fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins, í sérstakri umræðu um starfsumhverfi sjávarútvegsins. Sagði Gunnar nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefði um greinina undanfarin misseri.

Steingrímur lagði hins vegar áherslu á að ekki mætti einblína á sjávarútveginn og horfa yrði einnig til annarra mikilvægra atvinnugreina þjóðarinnar. Þá hafnaði hann því að ríkisstjórnin hefði skapað óvissu um sjávarútveginn og sagði að óvissa hefði alltaf ríkt um greinina. Þá ekki síst með tilkomu kvótakerfisins og deilna um það.

Nokkrir þingmenn, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, tóku til máls í umræðunni og deildu meðal annars um það hvort bætt afkoma sjávarútvegsins væri ríkisstjórninni að þakka eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert