Lífeyrissjóðirnir fjárfesti í samfélaginu

Ögmundur Jónasson leggur til að lífeyrissjóðirnir láni ríki og sveitarfélögum …
Ögmundur Jónasson leggur til að lífeyrissjóðirnir láni ríki og sveitarfélögum fé til að fjármagna uppbyggingu samfélagsins. mbl.is/Rax

Ég er í fyrsta lagi að leggja til að við tökum allt lífeyrissjóðakerfið og almannatryggingakerfið til endurskoðunar og látum efnahagshrunið vera okkur tilefni til þess,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Í Morgunblaðinu í gær birtist aðsend grein eftir Ögmund þar sem hann setur fram hugmyndir sínar um breytingu á lífeyriskerfinu.

„Ég er ekki að segja að sýnt sé að við verðum að leggja lífeyrissjóðakerfið í núverandi mynd alveg niður. En ég er að leggja til að við finnum nýja blöndu þar sem við styrkjum almannatryggingakerfið sem grundvöll lífeyriskerfisins. Það verði fjármagnað með gegnumstreymi og þá hugsanlega með tekjum úr Auðlindasjóði sem rætt hefur verið um að koma á laggirnar. Til hliðar við það yrði lífeyriskerfi sem grundvallast á sjóðsmyndun og í þriðja lagi mætti hugsa sér séreignarfyrirkomulag eins og við búum við.“

Þarf hófstilltari leið

Ögmundur leggur til að fjármunir lífeyrissjóðanna verði notaðir í ríkara mæli en nú er í fjárfestingar í samfélaginu með milligöngu ríkis og sveitarfélaga. Hvers vegna telur hann fjármununum betur varið á þann hátt? „Í fyrsta lagi tel ég að íslenska hagkerfið rísi ekki alveg undir því að lífeyrissjóðir fjárfesti sextíu til áttatíu milljarða í því árlega. Ég er alls ekki að segja að lífeyrissjóðirnir eigi að hverfa með öllu frá fjárfestingum í almennum atvinnurekstri, síður en svo. En við verðum að horfast í augu við það að arður af fyrirtækjum á markaði er tekjustofn sem er ekki treystandi á, það þarf að koma eitthvað meira og stöðugra til. Ég horfi til gegnumstreymiskerfa og Auðlindasjóðs sem til viðbótar yrði traustur tekjustofn til að fjármagna lífeyriskerfið að hluta. Í öðru lagi vill maður að fjármunirnir nýtist sem allra best til uppbyggingar samfélagsins. Það þarf að gerast með milligöngu ríkis og sveitarfélaga, annars verður þetta til þess að þrýsta á markaðsvæðingu velferðarkerfisins. Ríkið hefur verið í fjárþörf og þarf að taka peninga að láni. Ég sé fyrir mér að ríkið fái þá að láni úr lífeyriskerfinu eins og það hefur gert að hluta til í íbúðalánakerfinu en til annarra verkefna líka,“ segir Ögmundur.

Hann finnur fyrir því að fólk sé tilbúið að hugsa þessi mál upp á nýtt. „Lífeyrissjóðirnir voru of frekir til fjárins. Ég hefði viljað sjá þá hófsama langtímafjárfesta enda þjónar það hagsmunum þeirra til lengri tíma litið. Ef of hart er gengið fram í að hámarka arð verður efnahagslífið ekki aflögufært. Við þurfum að finna okkur hófstilltari, varanlegri og traustari leið og nýta fjármuni okkar til samfélagslega nýtra verkefna.“

Sér þetta ekki gerast

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segist ekki sjá breytingar á lífeyrissjóðakerfinu verða með þeim hætti sem Ögmundur leggur til. „Hann er í sjálfu sér að segja að almennu lífeyrissjóðirnir þurfi og eigi að breytast á næstu árum í hálfgerða gegnumstreymissjóði og fjárfesta í ríkara mæli í samfélagsverkefnum og þurfi að sætta sig við lága ávöxtum þess vegna. Ég sé það ekki gerast með þessum hætti. Aftur á móti hlýtur lífeyrissjóðakerfið að þurfa að fara í gegnum endurskoðun af þeirri ástæðu að það er skynsamlegt að gera það á vissu árabili og kerfið sem við búum við er orðið 15 ára.

Það er lífeyrissjóðanefnd í gangi og fjármálaráðherra hefur boðað að hópur sérfræðinga muni skoða fjárfestingaleiðir sjóðanna. Þessi mál eru í endurskoðun en grein Ögmundar finnst mér ekki gefa sjálfstætt tilefni til þess,“ segir Arnar.´

Ekkert annað en þjóðnýting

„Þetta yrði ekkert annað en þjóðnýting á lífeyrissjóðunum. Ögmundur ætlar að láta ríki og sveitarfélög taka sjóðina yfir,“ segir Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Það yrði mjög skaðlegt að breyta þeim peningum sem fólk hefur lagt í lífeyrissjóðina í skattpeninga.

Lífeyrissjóðirnir hafa verið að lána ríkinu í síauknum mæli eftir að gjaldeyrishöftunum var komið á og taka í staðinn skuldabréf frá ríkinu. Það er spurning hvers virði það er þegar það verður of mikið af slíku. Opinberar framkvæmdir geta verið arðbærar en það er spurning hvað ríkið vill borga fyrir lánið, það er alltaf erfitt að semja þegar aðeins einn aðili er um hituna og hann hefur valdboðið sín megin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert