Ekki reyndist vera mikill verðmunur á milli flugfélaga þegar kannað var verð á flugfari til og frá þremur vinsælum áfangastöðum í sumar. Mestur reyndist munurinn vera á flugi til og frá Berlín, en hægt er að velja á milli fimm flugfélaga, liggi ferðin þangað.
Um fjórtán flugfélög hafa tilkynnt að þau muni fljúga til og frá landinu í sumar. Nokkur þessara félaga hafa ekki verið með ferðir hingað áður, en flest þeirra erlendu flugfélaga sem bætast í hópinn fljúga til staða sem löngum hafa verið einna vinsælastir hjá Íslendingum.
Mbl.is kannaði verð á þremur vinsælum áfangastöðum: Kaupmannahöfn, London og Berlín. Valdar voru dagsetningarnar 8.-13, júní, en ekki reyndist alltaf unnt að halda sig við þær, þar sem félögin fljúga ekki öll á þeim tilteknu dögum og voru þá valdar dagsetningar sem voru sem næst þeim.
Lenda hvert á sínum flugvellinum
Lítill munur reyndist vera á fargjaldi til og frá London þegar kannað var verð fjögurra flugfélaga: Icelandair, Iceland Express, Easy Jet og Wow-Air. Ekkert þessara félaga lendir á sama flugvellinum; Icelandair lendir á Heathrow, Iceland Express á Gatwick, Easy Jet lendir á Luton-flugvelli og Wow-Air á Stansted.
Liggi leiðin til Kaupmannahafnar þessa tilteknu daga er verðið svipað hjá Iceland Express, Wow-Air og Icelandair. Talsvert dýrara er að fljúga með SAS, en samkvæmt upplýsingum á vefsíðu félagsins þarf að fara í gegnum Ósló og það gæti skýrt þennan verðmun.
Tvö þýsk félög til Berlínar
Kannað var fargjald fimm flugfélaga til Berlínar, þar af eru tvö þýsk félög. Þar er ódýrast að fara með Iceland Express, en dýrast með Icelandair. Þess ber að geta að flugið sem selt er á vefsíðu Icelandair er með félaginu til Kaupmannahafnar, en þaðan til Berlínar með SAS.
Alltaf var tekið lægsta verðið hverju sinni. Upplýsingarnar fengust á vefsíðum flugfélaganna sem lágu fyrir að morgni dags 21. febrúar. Verðið er miðað við fargjald og eina 20 kílóa tösku, en hjá sumum flugfélögum þarf að greiða aukalega fyrir farangur. Skattar og gjöld eru inni í verðinu.
Flugvellir geta verið langt frá áfangastað
Ekki er tekið tillit til þjónustu, eða hvort máltíðir og/eða drykkir eru innifaldir í verðinu. Þess ber að geta að sum flugfélög fljúga á vissa staði alla daga vikunnar, á meðan önnur fljúga sjaldnar. Líklegt er að það hafi einhver áhrif á verð.
Einnig ber að hafa í huga að í sumum tilvikum er lent á erlendri grundu snemma dags, en í öðrum tilfellum seint að kvöldi. Flugvellir gætu verið mislangt frá þeim borgum sem verið er að sækja þeim, þannig að verulegur kostnaður gæti verið við að komast til og frá flugvelli.