Óviðunandi að neita þeim veikustu

Það er óviðunandi að veikasta fólkinu sem þarf að komast …
Það er óviðunandi að veikasta fólkinu sem þarf að komast í öryggi á hjúkrunarheimilum sé neitað um pláss vegna lyfjakostnaðar, segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. mbl.is

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, heyrði fyrst af því um síðustu helgi að lyfjakostnaður einstaklinga gæti haft áhrif á hvort þeir fengju inni á hjúkrunarheimilum. Þetta væri afleiðing niðurskurðar framlaga til hjúkrunarheimilanna.

Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, vakti athygli á því í Morgunblaðinu að þegar nýir heimilismenn væru teknir inn á hjúkrunarheimili fengju stjórnendur að velja einn af þremur sem sendar væru upplýsingar um. Þá væri lyfjanotkun þessara einstaklinga skoðuð sérstaklega og ef einhver hinna þriggja notaði mjög dýr lyf kæmi hann ekki til greina sem heimilismaður.

„Mér finnst það alveg með ólíkindum að þessi staða sé komin upp,“ sagði Jóna Valgerður. „Þetta er í flestum tilfellum fólk sem er á sjúkrahúsi og þar greiðir ríkið fyrir lyfin sem þarf að nota. Svo er þessu öðruvísi varið þegar kemur að hjúkrunarheimilum.“

Hún benti á að flest hjúkrunarheimili væru án gildra þjónustusamninga. Þar væri þó Sóltún undanskilið. Í þjónustusamningi Sóltúns væri kveðið á um sérstaka upphæð vegna lyfjakostnaðar einstaklings og færi kostnaðurinn yfir þá fjárhæð kæmi viðbótarfjármagn. Jóna Valgerður sagði að hjúkrunarheimili án þjónustusamninga hefði farið fram á það við velferðarráðherra að gengið yrði frá slíkum samningi en það hefði ekki verið gert ennþá.

Dæmið ekki skoðað heildstætt

„Það verður að komast á hreint hvernig þessum málum er háttað,“ sagði Jóna Valgerður. „Það er óviðunandi að veikasta fólkinu sem þarf að komast í öryggi á hjúkrunarheimilum sé neitað um pláss vegna lyfjakostnaðar. Sjúkrahúsin þurfa líka á plássinu að halda. Auk þess er það dýrasta úrræðið fyrir ríkið að halda fólki á sjúkrahúsum. En það er í þessu eins og mörgu öðru að dæmið er ekki skoðað heildstætt.“

Jóna Valgerður sagði að velferðarráðherra yrði að taka á þessu máli. „Að mínu mati eiga sjúkratryggingar að taka þátt í kostnaði við lyf fyrir okkur eldri borgara eins og aðra, hvort sem við búum heima eða á hjúkrunarheimilum. Við í Landssambandi eldri borgara höfum ályktað margoft um að gera eigi þjónustusamning við öll hjúkrunar-og dvalarheimili fyrir aldraða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert