Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa sent kvörtun til innanríkisráðherra vegna ákvörðunar embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) um að taka ekki við kvörtunum vegna vörslusviptinga fjármálafyrirtækja, þrátt fyrir tilmæli ráðherra frá 28. júní síðastliðnum þar sem fram kemur að „telji einhver sig eiga skýlausan rétt á að fá umráð eignar sem er í vörslu annars þarf hinn fyrrnefndi almennt að leita til opinbers aðila til að fá þessa heimild sína staðfesta“.
Samtökin segja að Jón H.B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri, gangi í bréfi beinlínis gegn tilmælum ráðherrans, en í bréfinu segir að starfsmönnum LRH beri að vísa frá „kærum á hendur fjármögnunaraðila vegna vörslusviptingar fyrir þjófnað, nytjastuld, gertæki og eitthvað annað brot“.
HH telur að innanríkisráðherra beri að skýra þessi mál fyrir undirmönnum sínum í ljósi þess að samkvæmt tilmælum ráðherra sé dómsúrskurðar þörf áður en vörslusvipting getur farið fram.
Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara önnur stjórnvöld með framkvæmdavaldið en ekki einstaklingar í lögskiptum sín á milli. Vörslusviptingar fjármálafyrirtækja stangast því á við ákvæði stjórnarskrárinnar, svo og ákvæði laga um aðför (nr. 90, 1989), en þar kemur skýrt fram að dómsúrskurð þurfi til slíkra aðgerða.
Hæstiréttur dæmdi í vikunni afturvirka vaxtaútreikninga af áður gengisbundnu láni ólögmæta. Enn ríkir óvissa um áhrif dómsins auk þess sem HH telja vænlegast að bíða fleiri dóma, þar sem enn er ekki ljóst hvaða vextir eiga að gilda. Það má ljóst vera að meint vanskil í samningum eru hugsanlega ekki til staðar og því nauðsynlegt að fá dómsúrskurð um álitaefnið. Vegna allrar þessarar óvissu, svo og tilmæla innanríkisráðherra ætti það því að vera skylda löggæslunnar sem hluta framkvæmdavaldsins að taka strangt á brotum bílalánafyrirtækjanna í þessum málum.