Íslenskum karlmanni verður vísað úr landi í Kanada eftir að hafa verið handtekinn ofurölvi á bar í St. John á Nýfundnalandi í gær.
Samkvæmt frétt á vefnum VOCM sat Íslendingurinn, 34 ára þriggja barna faðir, að sumbli á O'Rielly's-barnum lungann úr deginum og endaði með því að detta niður af stól sínum á gólfið. Kallaði starfsfólk lögreglu til vegna ógnandi framkomu mannsins, sem er mikill vexti, samkvæmt frétt VOCM. Var hann með uppsteyt við lögreglu þegar átti að handtaka hann. Við leit á manninum fundust tveir hnífar í fórum hans.
Mundi ekki málavexti en játaði samt
Maðurinn var leiddur fyrir dómara í dag þar sem hann játaði sök en tók fram að hann myndi ekki málavexti. Sagðist hann hafa verið með hnífana á sér vegna vinnu sinnar en hann er sjómaður. Alls ekki hafi staðið til að beita þeim sem vopnum.
Báturinn sem Íslendingurinn er á lét úr höfn klukkan 16 í dag að staðartíma án Íslendingsins þar sem honum verður vísað úr landi og sendur með flugi heim til Íslands. Var hann dæmdur í fangelsi í einn dag og til að greiða 500 Kanadadali, 62 þúsund krónur, í sekt.