Uggi Ævarsson fékk Uppsveitabrosið

Ásborg Arnþórsdóttir afhendir Ugga Ævarssyni Uppsveitarbrosið.
Ásborg Arnþórsdóttir afhendir Ugga Ævarssyni Uppsveitarbrosið.

Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, hlaut í dag Uppsveitabrosið, árlega viðurkenningu sem veitt er þeim sem lagt hafa ferðaþjónustu í uppsveitum Árnessýslu og Flóa lið. Uggi fékk brosið fyrir einstaklega góða samvinnu.

Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, segir að samvinna Uppsveitanna við Fornleifavernd ríkisins hafi verið til mikillar fyrirmyndar um árabil og að sérstakt fagnaðarefni hafi verið að fá minjavörð á Suðurland. Ferðaþjónusta, menning, saga og fornminjar tengist  órjúfanlegum böndum og þess vegna sé mjög mikilvægt að gott samstarf sé milli faggreina.

„Það hefur verið ánægjulegt að vinna með starfsfólki Fornleifaverndarinnar og Minjaverði Suðurlands að uppbyggingu og verkefnum í Uppsveitum Árnessýslu. Spennandi tímar eru einnig framundan einkum í Þjórsárdal þar sem hugmyndasamkeppni um heildarmynd minjasvæðisins í Þjórsárdal hlaut nýlega styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða,“ segir Ásborg.

Uppsveitabrosið var afhent í 9. sinn í dag á fundi á Hótel Heklu á Skeiðum þar sem sveitarstjórnarmenn ásamt ferðamálafulltrúa komu saman til að ræða um ferðamál og horfa fram á veginn. Sérstakir gestir fundarins voru Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu, og Áslaug Briem, starfsmaður Vakans. 
  
Uppsveitabrosinu, sem er óáþreifanlegt, fylgir alltaf hlutur unninn af listamanni í uppsveitunum og að þessu sinni er það krítarteikning eftir myndlistarkonuna Sigurlínu Kristinsdóttur, sem á galleríið „Myndlist í hesthúsi“ í Reykholti í Biskupstungum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert