Meirihluti viðstaddra þingmanna samþykkti á Alþingi í dag með 30 atkvæðum gegn 15 þingsályktunartillögu um að stjórnlagaráð verði kallað saman á ný til fundar í mars til þess að ræða það hvort gera þurfi frekari breytingar á frumvarpi þess að nýrri stjórnarskrá sem verið hefur til meðferðar í þinginu.
Þá er samkvæmt þingsályktunartillögunni gert ráð fyrir að haldið verði þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum í sumar um frumvarp stjórnlagaráðs áður en það fari aftur til meðferðar á Alþingi þegar þing kemur saman næsta haust.
Miklar deilur hafa staðið um málið á Alþingi og hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins og flestir þingmenn Framsóknarflokksins gagnrýnt það harðlega og hvernig staðið hefur verið að því. Meðal annars fyrir það að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þrátt fyrir að vinna við frumvarpið eigi enn langt í land. Þá ekki síst með aðkomu lögfróðra sérfræðinga. Þá lægi ekki fyrir eitt kostnaðarmat vegna þingsályktunartillögunnar.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fór hörðum orðum um það hvernig staðið hefði verið að málinu og sagði vinnubrögðin fyrir neðan allar hellur. Þá sagðist hann ennfremur óttast að verið væri að vinna hugtakinu þjóðaratkvæðagreiðsla mikinn skaða til framtíðar með því hvernig haldið hefði verið á málum.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist fyrir atkvæðagreiðsluna efins um að um væri að ræða skref fram á við, meðal annars vegna þess að engin efnisleg umræða hefði farið fram um frumvarpið á Alþingi, en hann studdi skipun stjórnlagaráðs á sínum tíma. Sagðist hann af þeim sökum ætla að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.