Forsendur fyrir áframhaldandi ráðningu brostnar

Gunnar Andersen.
Gunnar Andersen. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Stjórn Fjármálaeftirlitsins segir í bréfi, sem sent var Gunnari Andersen, forstjóra stofnunarinnar, 17. febrúar, að hún telji ljóst að forsendur fyrir áframhaldandi ráðningu hans séu brostnar.

Hafi Gunnar að mati stjórnar Fjármálaeftirlitsins átt þátt í aðgerðum sem voru til þess fallnar að villa um fyrir stofnuninni við eftirlit hennar með málefnum bankans.

„Ekki þarf að rökstyðja ítarlega hversu óheppileg þessi staða er fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Eðlilegt er að mjög ríkar kröfur um vammleysi og flekklausan feril séu gerðar til þess manns sem gegnir forstjórastöðu stofnunarinnar. Það er einnig mat stjórnar FME að eðli þess ágalla sem með þessu er á áframhaldandi ráðningu þinni sé þannig að ekki sé unnt að bæta úr og að ekki sé um tímabundið ástand að ræða eða ástand sem líklegt er að muni lagast með tímanum," segir í bréfinu sem lögmaður Gunnars hefur sent til fjölmiðla.

Gunnari er gefinn kostur á að tjá sig um þessa fyrirhuguðu ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Í öðru bréfi, sem stjórn FME sendi Gunnari 20. febrúar þar sem fallist var á lengri frest til andmæla, er áréttað að ekki sé búið að taka ákvörðun um að segja Gunnari upp störfum og að mikilvægt að andmæli hans komi fram áður en ákvörðun sé tekin.

Stjórn FME segir, að Gunnar hafi að hennar mati veitt Fjármálaeftirlitinu rangar eða í besta falli villandi upplýsingar árið 2001. Gunnar hafi lýst því yfir í andmelum sínum að hann sé enn þeirrar skoðunar að skýrslugjöfin hafi verið rétt. Þetta gefi stjórninni með réttu tilefni til að draga í efa hæfi hans til að sinna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitins.
Tilvitnað ákvæði stjórnsýslulaganna vísi til þess að upp geti komið aðstæður þar sem með réttu megi draga í efa óhlutdrægni starfsmanns. Það sé mat stjórnar, að sú staða sé uppi í þessu máli, að með réttu megi draga í efa hæfi Gunnars í veigamiklum málum, sem varði starfsemi stofnunarinnar og þessar aðstæður séu líklegar til þess að draga
úr trúverðugleika stofnunarinnar í ákvörðunum, sem lúti að eftirliti með aðilum á markaði nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert