Sýslumenn hafna ásökunum Hagsmunasamtaka heimilanna

„Að ásaka heila stétt embættismanna um lögbrot með upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum er ekki málstað samtakanna til framdráttar,“ segir í bréfi Þórólfs Halldórssonar, formanns Sýslumannafélags Íslands, í bréfi fyrir hönd stjórnar félagsins til Hagsmunasamtaka heimilanna.

Tilefni bréfsins eru ásakanir samtakanna í garð sýslumanna um að þeir hafi brotið stjórnsýslulög og jafnvel stjórnarskrá Íslands með því að framkvæma fjárnám, nauðungarsölur og gjaldþrotaúrskurði á grundvelli ólögmætra útreikninga í kjölfar dóms Hæstaréttar á dögunum um gengisbundin lán.

Þórólfur bendir meðal annars á í bréfinu að það séu héraðsdómstólar sem kveði upp gjaldþrotaúrskurði en ekki sýslumenn. Um nauðungarsölur fari samkvæmt lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991 og um fjárnám samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989.

Hvorki fjárnám né nauðungarsölur fara fram á grundvelli vaxtaútreikninga að sögn Þórólfs en þeir séu þó eitt af því sem sýslumenn taki til skoðunar í nauðungarsölumálum við mat á nauðungarsölubeiðnum í samræmi við lög nr. 90/1991.

Þá hafi dómur Hæstaréttar engin áhrif í nauðungarsölubeiðnir á fasteign sem til að mynda eru vegna vangoldinna fasteignagjalda eða vangoldinna lögbundinna brunatrygginga en slíkar beiðnir séu algengar.

Þá er áréttað að hver sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta við nauðungarsölu geti leitað úrlausnar héraðsdómara vegna ágreinings um það hvort nauðungarsala fari fram. Þá er einnig áréttað að lögvarin réttindi gerðarbeiðanda á að fá kröfu sína greidda séu jafn mikilvæg og lögvarin réttindi gerðarþola samkvæmt stjórnarskránni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert