Fjármálaeftirlitið getur staðfest að það vinnur við athugun á nokkrum fjölda erinda vegna eftirlitsskyldra aðila, þ.á m. Dróma hf., sem borist hafa að undanförnu varðandi starfshætti. Ýmist er um kvartanir eða fyrirspurnir að ræða.
Fjallað er um endurútreikning lána, samskipti, upplýsingagjöf og verðmat fasteigna.
Þetta kemur fram í athugasemd á vef Fjármálaeftirlitsins vegna ummæla umboðsmanns skuldara um málefni Dróma hf., Frjálsa fjárfestingarbankans og Spron.
Segir þar m.a. að Fjármálaeftirlitið hafi verið í samskiptum við umboðsmann skuldara að undanförnu vegna kvartana og fyrirspurna sem umboðsmaður vinnur við sem tengjast eftirlitsskyldum aðilum. Fjármálaeftirlitið telji sér óheimilt að ræða málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila á meðan mál eru í athugun, en birti svonefndar gagnsæistilkynningar á vefsíðu sinni um niðurstöðu mála. Á þessu stigi sé ekki tímabært að birta opinberlega upplýsingar um starfshætti umræddra aðila ellegar ráðstafanir eftirlitsins.
Tekið er fram í athugasemdinni að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar starfi í samræmi við heilbrigða viðskiptahætti. „Þrátt fyrir þetta verður að hafa hugfast, sbr. síðari umfjöllun, að eftirlitið hefur ekki úrskurðarvald í ágreiningsmálum viðskiptavina og eftirlitsskyldra aðila.“