„Þetta eru forkastanleg vinnubrögð“

Pawel Bartoszek.
Pawel Bartoszek. mbl.is

Pawel Bartoszek, fulltrúi í stjórnlagaráði, segist hafa takmarkaðan áhuga á að veita Alþingi frekari ráð við breytingar á stjórnarskrá. Hann segir vinnubrögð þingsins við meðferð tillagna stjórnlagaráðsins forkastanleg.

Í pistli á Deiglunni skrifar Pawel að síðari umræða um meðferð á tillögum stjórnlagaráðs, sem fram fór í gær, hafi ekki verið þingsins besta stund. „Í raun er öll meðferð Alþingis á tillögum ráðsins þinginu til vansa og skipulag þess leiðangurs sem framundan er með þeim hætti að jafnvel þolinmóðustu farþegarnir geta ekki annað en stigið frá borði. Því miður.“

Svo skrifar Pawel: „Og hvaða tillögur liggja á þessari stundu fyrir af hálfu þingsins varðandi breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs? Engar. Ekki ein einasta. Kannski koma einhverjar fyrir helgi, segja menn. Kannski eftir helgi. Kannski fær ráðið einhverjar spurningar frá einni þingnefnd. Kannski. En mér sýnist í fljótu bragði að á því hálfu ári sem þingið hefur haft tillögurnar til umræðu hafi ekki farið fram neinar raunverulegar efnislegar umræður um inntak þeirra sjálfra. Né heldur hefur þingið farið í þá vinnu að rýna tillögurnar af einhverri alvöru, ýmist til að finna hugsanlega ágalla eða styrkja grundvöll þeirra stjórnarskrárbreytinga sem lagðar hafa verið fram. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.“

Um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu skrifar Pawel: „Staðan er því þessi: eftir fjóra mánuði verður kosið um einn hlut sem ekki er búið að skoða og nokkra aðra hluti sem ekki er búið að ákveða. Um niðurstöðuna verður rifist. Hvað ef 51% samþykkir tillögurnar? Er mönnum þá stætt á að breyta þeim? Hvað ef 51% fellir? Ætla menn þá að taka því eða reyna að lappa upp á tillögurnar? Hvernig verður farið með úrslit undirspurninganna? Ég hef hvergi séð að þetta væri skýrt. Nefndarálit með tillögunni ber vonir um að „niðurstöður slíkrar atkvæðagreiðslu nýtist Alþingi vel við áframhaldandi meðferð málsins“. Hljómar nákvæmlega þannig að stjórnmálamenn eigi að lesa í „leiðsögn almennings“ eftir eigin geðþótta. Það er ekki góð hugmynd.“



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert