Þingið brást stjórnlagaráði

Hluti stjórnlagaráðs á fyrsta fundi ráðsins.
Hluti stjórnlagaráðs á fyrsta fundi ráðsins. mbl.is/Golli

„Þetta þýðir einfaldlega það að ég taki ekki þátt í þessum fundi,“ segir Pawel Baroszek, formaður C-nefndar stjórnlagaráðs, um þau ummæli sín að hann hafi takmarkaðan áhuga á að veita þinginu frekari ráð. Hann óttast að lítið verði að marka þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur ráðsins að nýrri stjórnarskrá.

Mbl.is ræddi við Pawel í síma þar sem hann var staddur í Póllandi.

Hann segir vinnubrögð þingsins hafa valdið sér vonbrigðum.

„Mínar væntingar voru þær að þegar við skiluðum sem ráðgefandi stjórnlagaráð inn okkar tillögum að nýrri stjórnarskrá í 115 greinum að þá myndi þingið fylgja því eftir með mjög ýtarlegri skoðun á þeim tillögum og síðan móta sér efnislega afstöðu til tillagnanna sjálfra.

Það kom fram heilmikið af hvers kyns álitum frá ólíkum einstaklingum og hagsmunahópum inn í þingið. En margt af því höfum við séð áður í starfi okkar hjá stjórnlagaráði. Þannig að það eitt og sér mun lítið duga til þess að starf stjórnlagaráðs geti orðið að einhverju leyti hnitmiðað þennan örskamma tíma sem við fáum.

Ég held að það hefði verið langeðlilegast - og það voru mínar væntingar - að þingið myndi setjast yfir frumvarpið, skoða það faglega og taka síðan efnislega afstöðu til hinna og þessara tillagna og koma svo með fastan ramma um hvað þinginu þyki gott og hvað það telur að megi betur fara. Það væri þá eitthvað sem mætti taka afstöðu til en það hefur þingið ekki gert.“

Málið ekki í góðum farvegi

- Í hvaða farveg finnst þér málið vera komið?

„Mér finnst þetta ekki vera góður farvegur ... Ég tel að þegar menn fara í gegnum eins stórt mál og stjórnarskrárbreytingar - og séu jafnvel mjög hrifnir og fylgjandi öllu sem þar stendur - að þá þurfi sterkan fræðilegan grundvöll til verksins af hálfu þingsins. Ég starfaði í stjórnlagaráði og þekki einfaldlega þær takmarkanir sem við höfðum.

Við unnum í fjóra mánuði og reyndum að fá eins mörg sérfræðiálit og hægt var en auðvitað var það verk ekki fullkomið. Það hefði verið mjög gott ef þingið, sem hefur langa reynslu sem löggjafar- og stjórnarskrárgjafi, hefði beitt sér af öllu afli til að sigla þessu máli eins vel áfram og kostur var. Þetta hálfa ár sem liðið er hefur ekki verið nýtt vel í það verk.“

Þora ekki að láta skoðun sína á tillögunum í ljós

- Þú talar um þingmenn sem kunni að bregðast við frumvarpinu með því einfaldlega að segja að þeir vilji ekki kjósa um nýja stjórnarskrá. Ertu þá að segja að sumir þingmenn hafi mótað sína afstöðu fyrirfram og að það skýri að hluta til þessa vanrækslu sem þú gerir að umtalsefni?

„Ég held að lögð sé gríðarleg áhersla á formið. Mörgum þykir það árangur í sjálfu sér að málið komist í þjóðaratkvæði án þess að þeir séu vissir um það sjálfir hvort tillögurnar séu góðar eða ekki. Hins vegar eru það að mínu mati ekki bestu þjóðaratkvæðagreiðslurnar sem eru settar af stað með þeim hætti sem þarna er gert.

Þá ég til dæmis við að enginn þori að segja að þetta séu tillögur sem þeir styðja. Ég hefði viljað sjá að ef þingið er sæmilega sátt við tillögurnar að þá eigi það að gera tillögurnar að sínum en ekki segja einfaldlega að þetta sé mál sem þjóðin á að kjósa um.“

Eiga að styðja tillögurnar

- Þannig að þú hefðir viljað sjá þingmenn úr röðum ríkisstjórnrinnar stíga fram og lýsa yfir stuðningi við þessar tillögur?

„Ef þeir styðja þær eiga þeir auðvitað að gera það. Þingmenn eru stjórnarskrárgjafinn og og samkvæmt stjórnarskránni eiga þeir að kjósa um stjórnarskrárbreytingar. Svo er annað. Það er óljóst hver uppsetningin verður á ferlinu í framtíðinni. Nú veit ég ekki hvort kosið verður um tillöguna í heild sinni eða einstaka kafla hennar og hvernig svo verður farið með þær niðurstöður.

Ef 51% þjóðarinnar kýs með tillögunni líta menn þá svo á að hún hafi verið samþykkt orðrétt og að henni verði ekki haggað? Eða ætla menn þá að gefa sér að þetta sé meginlínan og að þeir geti pússað af helstu vankantana? Hvað ef 51% þjóðarinnar kýs á móti? Ætla menn þá að taka því sem skilaboðum um að kjósendur vilji alls ekki tillögurnar eða að það séu skilaboð um að sníða þurfi af helstu vankantana? Hvernig sem kosið er hætt við að ekki verði mikið að marka þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þessu er mjög ábótavant, að framhaldið sé skýrt að þessu leyti.“

Pawel Bartoszek.
Pawel Bartoszek. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert