Baðst afsökunar fyrir 12 árum

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. Ragnar Axelsson

„Ég hef ekki séð blaðið og veit ekki hvað stendur í því,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, um umfjöllun í Nýju lífi þar sem systurdóttir eiginkonu hans segir frá bréfum sem hann sendi henni er hún var á unglingsaldri. „Þetta er tólf ára gamalt mál og ég bar fram afsökunarbeiðni fyrir tólf árum.“

Fréttablaðið birtir afsökunarbréf Jóns Baldvins í dag og segist hann hafa litlu við það að bæta. „Ef ég myndi senda frá mér einhverja yfirlýsingu, þá yrði hún líklega rangtúlkuð,“ segir hann.

Tvisvar vísað frá

„Það er búið að kæra málið tvisvar, lögreglan rannsakaði það og því var vísað frá á þeirri forsendu að þetta væri tilefnislaus kæra,“ segir Jón Baldvin. „Ég var yfirheyrður mjög rækilega og niðurstaðan varð sú sama; það var ekki tilefni.“

Í einu bréfanna skrifar Jón Baldvin um samskipti sín við vændiskonur í opinberri ferð sinni til Tallinn í Eistlandi árið 2001.

Spurður hvort hann geti útskýrt það frekar segist hann ekki vilja það. „Nei, ég vísa til þess að þetta er eitt af því sem var framlagt í málinu og hefur fengið sína umfjöllun,“ segir hann. Hann vildi ekki svara spurningu um hvort það hefði verið til siðs hjá honum að umgangast vændiskonur í slíkum ferðum.

Bréfin ekkert leyndarmál

Hann segir bréfin aldrei hafa farið leynt og aldrei neina tilraun hafa verið gerða til að leyna tilvist þeirra. „Þessi bréf hafa verið fjölfölduð og þeim dreift til fjölda fólks,“ segir Jón Baldvin og segir að hann og nánasta fjölskylda hans hafi meðal annars komið þeim á framfæri við fjölskyldumeðlimi til að skýra sitt sjónarhorn í þessu sambandi. „Við höfum leitað til aðila innan fjölskyldunnar til að ganga í milli og höfum látið þau fá þessi bréf.“

Hann segist hafa orðið fyrir því að fólk úr ýmsum áttum hafi komið til sín við hin ýmsu tækifæri og sagst hafa lesið bréfin.

Jón Baldvin segist ekki hafa haft veður af umfjöllun Nýs lífs fyrr en blaðamaður hringdi í hann í gær til að leita viðbragða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert