Börn og unglingar í óhamingjugildru

Það er ekki nóg að tækifærin séu til, einstaklingurinn þarf að hafa hvata til þess að sjá þá möguleika sem hann hefur á að nýta sér þau,“ segir dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf og formaður stjórnar RBF, Rannsóknarstofnunnar í barna- og fjölskylduvernd við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Rannsóknarstofnunin stendur í dag fyrir málþingi í samstarfi við Lionshreyfinguna á Íslandi, undir yfirskriftinni „Framtíð barna: Forvarnir 1, 2 og 3!,“ en þar verður fjallað um ýmis málefni er varða börn og fjölskylduvernd, m.a. það sem Sigrún hefur kosið að kalla „óhamingjugildruna“.

„Í hverju velferðarsamfélagi, sama hversu vel það er statt, eru ákveðnir hópar barna sem eiga undir högg að sækja og eru í áhættuhópum,“ útskýrir Sigrún. „Þau fæðast inn í aðstæður þar sem foreldrar þeirra hafa ekki bolmagn eða getu til að veita þeim stuðning og efla þau og þau standast ekki samkeppnina í skólanum, eru með bjagaða sjálfsmynd og liggja þar af leiðandi vel við höggi,“ segir hún.

Ekki teknir út fyrir hópinn

Sigrún mun á málþinginu kynna verkefnið Læsi á lífiðen það miðar að því að ná til þessara barna og ungmenna, t.d. með fræðslu og samtalshópum. „Oft eru þetta einstaklingar sem búa yfir seiglu og hafa styrk sem þó hefur ekki tekist að leysa úr læðingi. En með tiltölulega litlu átaki; að það sé einhver sem trúir á þau, að þeim bjóðist þátttaka í verkefnum, fræðslu eða annarri virkni, þá vaknar þessi kraftur í þeim,“ segir Sigrún. Ef ekkert sé að gert sé hins vegar hætt við því að þau samsami sig við og erfi félagslegar aðstæður foreldra sinna.

Sigrún segir mikilvægt að í þessari vinnu séu þessir einstaklingar ekki teknir út fyrir hópinn. „Þvert á móti förum við út með almenna fræðslu eða verkefni og vekjum þau þannig til meðvitundar. Þá kannski vaknar áhugi og þau verða sýnileg,“ segir hún. Þessi nálgun gangi út á að unnið sé út frá styrk einstaklingsins en ekki veikleikum. „Og það er alltaf betra en að setja merkimiða á fólk fyrirfram þannig að það skilgreini sig út frá einhverjum sjúkdómi eða vangetu,“ segir hún.

Sem dæmi um fræðslu eða verkefni sem geta hjálpað ungmennum að verða „læs á lífið“ nefnir Sigrún fjölskyldufræðslu í framhaldsskólum, þar sem ungu fólki er kennt hvað felst í því að stofna fjölskyldu, verða foreldri og axla ábyrgð. Hún leggur áherslu á að í þessari vinnu sé samvinna lykilatriði, sérstaklega þegar margir aðilar koma að málefnum eins einstaklings en þetta sé nokkuð sem rík áhersla sé lögð á í námi í félagsráðgjöf, bæði hvað varðar þverfaglegt samstarf en einnig samstarf milli ólíkra kerfa og stofnana.

Samvinna lykilatriði

„Svokölluð samsmíð er sú hugmyndafræði sem er nú ráðandi í allri velferðarþjónustu en hún gengur út á að fagfólk komi saman úr ólíkum áttum og stilli saman strengi sína varðandi málefni einstaklingsins. Þetta er lýðræðisleg nálgun og í staðinn fyrir að einhver einn taki ákvörðun fyrir Jón Jónsson þá er hann hafður með í vinnunni, efnt er til samstarfsfunda og byggt upp prógramm þannig að hann fái stuðning úr mörgum áttum. Þetta tekur meiri tíma og kostar meiri peninga en við teljum að þessi leið skili meiri ánægju og árangri,“ segir Sigrún.

Málþingið er haldið í Öskju í Háskóla Íslands og hefst kl. 16.30.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert