„Ég er komin með nóg. Reglulega kemur upp hjá mér reiði, sorg eða biturð yfir þessu máli og nú langar mig að koma því frá mér,“ segir Guðrún Harðardóttir, sem í viðtali í Nýju lífi segir frá bréfum sem eiginmaður móðursystur hennar, Jón Baldvin Hannibalsson, sendi henni er hún var unglingur.
„Þegar ég heyri um Jón Baldvin talað í fréttum eða á netinu, þá líður mér illa. Fjölskyldan mín er splundruð út af þessu og mér finnst eins og það sé kominn tími til að fólk fái að vita sannleikann og taki afstöðu. Ég vil að fólk lesi bréfin og sjái svart á hvítu hvað í þeim stendur. Sumir þykjast standa með mér en mæta svo í veislur til Jóns Baldvins. Mér finnst vissulega skrítið að koma fram í fjölmiðlum en tel það einu leiðina til að fá fólk til að horfast í augu við staðreyndir,“ segir Guðrún í viðtalinu.
Dekraði hana sem barn
Hún segir að Jón Baldvin hafi dekrað sig sem barn og segir að fyrst hafi sér fundist bréf hans einkennileg og hún hafi flissað yfir þeim með systrum sínum. „En bréfin fóru að verða skrítin þegar hann bað mig að segja ekki frá þeim og fór að senda mér bréf í skólann,“ segir Guðrún í viðtalinu.
Hún segir bréfin hafa verið saklaus í fyrstu, en síðan hafi þau orðið grófari og nefnir þar tvö bréf sem hann sendi henni árið 2001 þegar hún var skiptinemi í Venesúela.
Lýsti kynlífi með eignkonu sinni
„Í þessu bréfi talar hann um mig og hórur í sömu andrá. Í öðru bréfi lýsir hann kynlífi með konunni sinni, sem kemur mér ekkert við. Ég man hvar ég sat þegar ég las lýsingar á samförum hans við frænku mína og ég hálfpartinn henti frá mér bréfinu. Ég varð brjálæðislega hrædd og áttaði mig á því að þetta væri alls ekki í lagi. Eftir að hafa fengið þessi bréf sagði ég í fyrsta sinn einhverjum frá því að þetta væri vandamál. Fólkið í Venesúela var fyrst til að fá að vita það.“
Eftir að hún kom heim frá Venesúela skýrði hún fjölskyldu sinni frá málinu og eiginkonu og börnum Jóns Baldvins var boðið að lesa bréfin.
Hún segir að sér hafi verið létt við að kæra málið en brugðið þegar því var vísað frá.
Missti trú á íslensku réttarkerfi
„Mér fannst eins og það væri verið að svíkja mig og ég missti alla trú á íslensku réttarkerfi. Ég var líka sár yfir því að ég fengi það í bakið að hafa farið til útlanda sem skiptinemi. Að ég hafi einmitt verið stödd í útlöndum þegar bréfið barst og mér fannst sorglegt að það hafi skipt sköpum í málsmeðferðinni. Ég hélt að það væri jákvætt að fara til útlanda í skiptinám og í eina skiptið sem ég hef séð eftir því að hafa farið var þegar þessi niðurstaða kom. Mér þykir þetta fáránlegt. Niðurstaða ríkissaksóknara, að fella málið niður, vegur jafnþungt og veldur mér jafnmikilli reiði og málið sjálft.“
Margþætt áhrif málsins
Guðrún segir málið hafa haft þau áhrif að sér þyki óþægilegt að búa á Íslandi, en hún hefur að mestu leyti verið búsett erlendis frá því að hún kærði Jón Baldvin.
Auk þess segir hún málið hafa haft ýmis andleg áhrif. „Þegar ég var lítil og fékk svona mikla athygli frá honum, þá hélt ég það væri eitthvað við mig sem léti fullorðna karlmenn verða skotna í mér. Það er erfitt að benda á hvað það er, en ég er að mörgu leyti lituð af þessu.“