Klára málið í næstu viku

Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. GVA

Ef Alþingi vísar máli gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, frá verða gögn sem safnað hefur verið saman vegna málshöfðunarinnar send á Þjóðskjalasafnið til varðveislu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd reiknar með að afgreiða tillögu um afturköllun málsmeðferðar í næstu viku.

Á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun var fjallað um þá spurningu hvað yrði um gögn málsins ef málinu yrði vísað frá.

„Ef málinu verður vísað frá þá verður gögnum málsins safnað saman og þau fara á Þjóðskjalasafnið,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar. Hún sagði að í þessu máli væri byggt á margvíslegum gögnum sem sum hver væri hægt að komast í, eins og t.d. Rannsóknarskýrslu Alþingis. Eins væru gögn frá Stjórnarráðinu opinber. Gögn sem þetta mál varðaði yrðu hins vegar ekki aðgengileg almenningi á einum stað.

„Gögn sem saksóknari er búinn að taka saman fara á Þjóðskjalasafn og sama á t.d. við sóknarræðu sem saksóknari er hugsanlega búinn að skrifa.“

Valgerður sagði að fram hefði komið hjá Páli Þórhallssyni, lögfræðingi forsætisráðuneytisins, sem kom fyrir nefndina í morgun, að almenna reglan væri að ekki væri hægt að komast í sakamálagöng á Þjóðskjalasafni nema með sérstöku leyfi. Gögn um ríkisstjórnarfundi eru gerð opinber eftir 30 ár. Ef gögnin varðar einkamálefni eru þau lokuð í 80 ár.

Klára málið í næstu viku

Valgerður sagði að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi ljúka umfjöllun um þetta mál í næstu viku. Hún sagðist reikna með að málið yrði sett á dagskrá Alþingis í þeirri viku. Hún sagði ljóst að meirihluti nefndarinnar væri á móti því að draga kæruna gegn Geir til baka.

Valgerður sagði að nefndin hefði fyrir þennan fund verið búin að afgreiða spurninguna um hugsanlegt vanhæfi þingmanna sem væru á vitnalista í málinu. Hún sagði engan vafa leika á að þessir þingmenn væru hæfir til að taka þátt í atkvæðagreiðslu. „Þeir sem við höfum spurt hafa svaraði þessu á þann veg að þingmenn séu hæfir, en þeir verði að meta það sjálfir. Þar fyrir utan geta verið einhverjir þingmenn sem telja einstaka þingmenn vanhæfa í þessu máli, en það er annað mál.“

Aðalmeðferð í landsdómsmálinu á að hefjast 5. mars, en ekkert verður að því að málið verði flutt taki Alþingi ákvörðun um að draga ákæruna til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka