Óvíst um fordæmisgildi

KPMG
KPMG mbl.is/Sverrir

Hugsanlegt er að fordæmisgildi nýfallins gengislánadóms sé ekki það mikið. Þetta kom fram í máli Sigurjóns Högnasonar, lögfræðings, á morgunverðarfundi KPMG í morgun, þar sem farið var yfir dóminn með hliðsjón af fordæmisgildi hans. Er þá litið til þess að þar sé efni dómsins um það afmarkað efni.

Sigurjón sagði dóminn hafa  fordæmisgildi gagnvart sambærilegum málsatvikum.  Þar verði að hafa í huga að erfitt sé að átta sig á hvenær málsatvik eru sambærileg. Hæstiréttur hafi í niðurstöðu sinni litið heildstætt á nokkra þætti en erfitt sé að greina vægi hvers þáttar fyrir sig.

Í þessu tilviki hafi verið um að ræða að ákveðinn aðstöðumunur hafi verið á fjármálafyrirtækinu og skuldaranum. Skuldbinding skuldara hafi verið til langs tíma, þ.e. 30 ára og skuldararnir hafi í langan tíma, 5 ár, greitt til samræmis við tilmæli kröfuhafans. Skuldarnir hafi greitt í góðri trú, talið um fullnaðargreiðslur að ræða og haft réttmætar væntingar um að þeir yrðu ekki krafðir um frekari greiðslur. Endurreikningur vaxta, til samræmis við seðlabankavexti hafi falið í sér umtalsverða viðbótargreiðslu eða um 6,5 milljónir af 19,2 milljóna króna höfuðstól láns. Auk þess hafi komið fram að tekið var tillit til röskunar á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Það geti vakið upp spurningar um hvaða áhrif það hefur á þá einstaklinga sem hafa mjög sterka fjárhagslega stöðu.

Sigurjón vék einnig að mögulegum skattalegum áhrifum dómsins. Tók hann þar til þess að mismunur vaxtagreiðslna fyrir og eftir dóm geti í raun myndað skattskyld fjárhagsleg gæði í skilningi tekjuskattslaga. Kröfuhafi hefði átt rétt á viðbótagreiðslum ef hann hefði ekki glatað þeim rétti,með því að gefa kvittanir fyrir fullnaðargreiðslum. Því mætti líta á kvittun um fullnaðargreiðslu sem eftirgjöf kröfu um greiðslufrekari vaxta en í eftirgjöf flest að kröfuhafi leysir skuldara undan skyldu til greiðslu.

Hann vék að bráðabirgðaákvæði XXXVII í tekjuskattslögunum, sem kveður á um undanþágu frá skattskyldu vegna eftirgjafa skulda. Það ákvæði eigi hins vegar við um þegar fólk á í greiðsluerfiðleikum og fær af þeim sökum niðurfellingu. Í þessu tilviki hafi ekki verið um greiðsluerfiðleika að ræða þar sem hjónin hafi ávallt staðið í skilum.

Sigurjón taldi dóminn ekki eiga að hafa áhrif á vaxtabætur eða barnabætur til hækkunar eða lækkunar. Nema gjaldandi óski sjálfur eftir því. Vísaði hann þar til bráðabirgðaákvæðis XL í tekjuskattslögum.

Sigurjón tók að endingu fram að í þessu efni væri það skattyfirvalda að skera úr um skattskyldu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert