Pawel virðist eitthvað misskilja ferlið

Þór Saari.
Þór Saari. Ómar Óskarsson

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar skrifar á Facebook að Pawel Bartozsek sem sat í stjórnlagaráði og hefur gagnrýnt meðferð þingsins á tillögum þess, virðist eitthvað misskilja ferlið við breytingar á stjórnarskránni. Þór skorar á Pawel að halda áfram að vinna með stjórnlagaráði.

Í frétt á vef Hreyfingarinnar segir frá ákvörðun Pawel um að hann ætli ekki að koma að frekari störfum stjórnlagaráðs, en í gær samþykkti Alþingi með 30 atkvæðum gegn 15, að kalla stjórnlagaráð saman á ný til fjögurra daga fundar í byrjun mars til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunarnefndar að mögulegum breytingum á stjórnarskrá.

Þór Saari er einn þeirra sem hafa brugðist fregnum af afstöðu Pawels.  Þór skrifar í athugasemd á Facebook:

„Pawel virðist eitthvað miskilja ferlið við breytingar á stjórnarkránni. Frumvarp Stjórnlagaráðs var lagt fyrir Alþingi sem skýrsla en ekki sem frumvarp og það var aldrei ætlunin að í þessari umferð yrði farið í efnislega umfjöllun um stakar greinar af hálfu Alþingis heldur að leitað yrði álits þjóðarinnar áður en Alþingi tæki málið til efnislegrar meðferðar.

Stjórnlagaráð fær nú tækifæri, eins og það bað um, til að koma að málinu aftur vegna ýmissa spurninga sem hafa vaknað varðandi suma hluta tillagna þess. Að athugun sinni lokinni sendir stjórnlagaráð málið aftur til Alþingis, með breytingartillögum ef einhverjar eru. Þaðan fara tillögurnar síðan í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og þaðan til Alþingis til efnislegrar meðferðar í haust (ef þjóðin samþykkir tillögurnar).

Þá mun þingið hafa heilt þing, haust 2012 og vor 2013 til að fjalla efnislega um málið eins og því ber samkvæmt stjórnarskrá. Vinnubrögð þingsins eru ekki forkastanleg eins og Pawel segir en þetta mál hefur tekið lengri tíma en reiknað var með enda stórt og vand með farið. Skora eindregið á Pawel að halda áfram með góða vinnu stjórnlagaráðs og klára hana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert