„Ég vona að við munum hafa einhver tíðindi innan tíu daga,“ segir Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, spurður um mögulegar fjárfestingar kínverska fjárfestisins Huang Nubo á Norðausturlandi. Hann bætir við að rík áhersla sé lögð á að sem mest sátt náist um málið.
Bergur fór til fundar við Huang í Peking fyrr í mánuðinum, í samráði við iðnaðarráðuneytið, og var greint frá því í fjölmiðlum nýverið að Norðurþing ásamt fleirum hygðust kaupa hlutinn í Grímsstöðum á Fjöllum sem Huang falaðist eftir og leigja honum. Bergur vildi þó lítið tjá sig um hvernig fyrirkomulagið verður.
„Ég vil ekki tjá mig um það fyrr en þetta er fullmótað. Ég er mjög varfærinn í þessu, en þetta gengur ágætlega og við leggjum ríka áherslu á að þetta verði gert með þeim hætti að sem mest sátt náist um þetta mál. Og í raun þannig að þetta snúist aðeins um það hvort menn séu hlynntir því að byggja alvöru hótel á landsbyggðinni.“
Huang Nubo tilkynnti um það í viðtali við Morgunblaðið í desember, eftir að innanríkisráðuneytið hafnaði umsókn hans um undanþágu frá lögum vegna kaupa á hlut í jörðinni Grímsstöðum, að hann væri tilbúinn til að fjárfesta á Íslandi og ræða hvaða leiðir eru honum færar til þess, enda hafi ferlið kostað mikið fé.