„Loksins nú eru forystumenn viðræðnanna af Íslands hálfu farnir að viðurkenna að ESB viðhefur sitt verklag og að viðræðuferlið lúti lögmálum þess, ekki Íslands. Allt tal um að „kíkja í pakkann" og sjá hvað stendur til boða er sannarlega blekking", segir Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, í grein í Mbl. í dag.
Erna segir að heimavinnu Íslendinga vegna opnunarskilyrða í landbúnaðar- og byggðamálum sé ólokið og ekkert hafi frést af undirbúningi samningsmarkmiða fyrir viðræður um landbúnað. Þá hefur ESB ekki heldur viljað ræða sjávarútvegsmál fyrr en það hefur lokið sinni heimavinnu, en endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar stendur þar yfir. Það hefur því reynst enn ein blekkingin að Ísland fengi aðild að endurskoðun hennar með því að sækja um aðild að ESB eins og haldið var fram á fyrri stigum.
„Þá heyrir til algerra undantekninga að efni sem kemur frá ESB tengt viðræðunum sé þýtt á íslensku. Hvernig á almenningur að geta sett sig inn í flókið ferli þegar stærstur hluti þeirra gagna sem ESB leggur fram er aðeins til á ensku?", spyr Erna m.a. í grein sinni sem lesa má í heild í Morgunblaðinu í dag.