Fóru yfir möguleg úrræði með réttarfarsnefnd

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

„Það var kynnt fyrir okkur álit sem lögfræðingar frá lögmannsstofunni Lex hafa unnið fyrir Samtök fjármálafyrirtækja um fordæmisgildi dóms Hæstaréttar. Við munum í beinu framhaldi af því leita eftir sjónarmiðum hinnar hliðarinnar þegar hún hefur fengið álitið og getað glöggvað sig á því,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en nefndin fundaði í morgun um nýlegan dóm Hæstaréttar um gengisbundin lán. Hann segist gera ráð fyrir því að kallað verði eftir viðbrögðum fulltrúa neytenda strax eftir helgina.

„Við fórum síðan jafnframt með fulltrúum úr réttarfarsnefnd yfir ýmis atriði sem að taka þarf á, hvar væri rétt að beita lagaúrræðum og hvar væri rétt að beita tilmælum og svo framvegis. Það lýtur fyrst og fremst að því að tryggja eins og hægt er rétt neytenda í þeirri óvenjulegu stöðu sem upp er komin,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Hann segir að um hafi verið að ræða gagnlega yfirferð og að nefndin væri meðal annars með til skoðunar lengingu á tilteknum málshöfðunarfrestum sem og önnur atriði sem varða til að mynda endurupptökur á málum og fleira.

„Við ræddum síðan meðal annars um möguleika þess að nýta staðfestingarmál sem eitt af úrræðunum til þess að flýta því að fá svör við þeim spurningum sem enn er ósvarað og sömuleiðis um flýtimeðferðina,“ segir Helgi.

Hann bendir á að ljóst sé að dómstólar hafi heimildir til flýtimeðferðar og ef aðilar máls, það er sóknaraðili og varnaraðili, séu tilbúnir til þess með frjálsum samningum að flýta málsmeðferð þá eigi að vera hægt að greiða verulega fyrir slíkri málsmeðferð.

Helgi segir að efnahags- og viðskiptanefnd hafi á fundinum í morgun fyrst og fremst verið að fara yfir málið með fulltrúum í réttarfarsnefnd og engin niðurstaða hafi orðið í þeim efnum en fundað verði aftur um það á mánudagsmorgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert