Læknar Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins greindu konum, sem komu þangað í hópleit, ekki frá því að rofnar sílikon-brjóstafyllingar hefðu komið fram við skoðun. Að sögn læknis á Leitarstöðinni var vinnureglan sú að greina einungis þeim frá því, sem höfðu pantað tíma sérstaklega vegna einkenna í brjóstum.
Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag. Þar er þetta haft eftir Kristjáni Sigurðssyni, yfirlækni á Leitarstöðinni. Hann segir landlækni hafa óskað þess að Leitarstöðin breytti vinnureglum sínum og greindi konum frá lekum púðum í kjölfar fregna af PIP-púðunum. Aftur á móti sé ógjörningur að fara í gegnum eldri gögn Krabbameinsfélagsins til að sjá hvaða konur hafa ekki fengið upplýsingar um leka púða.
Leki kom í ljós hjá konu, sem var með sílikon-fyllingar þegar hún fór í hópleit hjá Krabbameinsfélaginu árið 2008. Henni var ekki greint frá því og hún vissi ekki af því, fyrr en síðar. Hún hefur átt við mikið heilsuleysi að stríða og segir þessi vinnubrögð algerlega ólíðandi.