Í bréfi sem stílað er á Pál Magnússon, útvarpsstjóra, mótmælir Stofnun Simon Wiesenthals í Los Angeles í Bandaríkjunum lestri Passíusálmanna í Ríkisútvarpinu í aðdraganda páskanna en það hefur verið gert árlega allt frá árinu 1944.
Mótmælin byggja á þeirri fullyrðingu að Passíusálmarnir, sem séra Hallgrímur Pétursson orti á árunum 1656 til 1659 og fjalla um krossfestingu og dauða Jesú Krists, séu uppfullir af gyðingahatri en bréfið er birt á heimasíðu Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar, fornleifafræðings.
Fram kemur í bréfinu að yfir 50 skírskotanir til gyðinga megi finna í Passíusálmunum og þær séu allar neikvæðar. Flestar séu þær til þess fallnar að stuðla að aukinni andúð á gyðingum. Þær ýti meðal annars undir neikvæðar staðalímyndir um gyðinga.
Með bréfinu fylgir listi yfir atriði í Passíusálmunum sem gagnrýnd eru og kemur fram að málið sé enn alvarlegra í ljósi þess að margir virtustu borgarar Íslands taki þátt í upplestrinum. Lýkur bréfinu á því hvatningu um að hætt verði þeirri hefð að lesa Passíusálmana í Ríkisútvarpinu.
Haft er eftir Páli á fréttavef Ríkisútvarpsins að hann hafi ekki fengið slíkt bréf í hendur en hann muni kynna sér efni þess síðar í dag.