Skýra þarf markmið með sölu ríkisfyrirtækja

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfshópur á vegum forsætisráðherra telur að skýra þurfi mörkin milli markmiða stjórnvalda með sölu ríkisfyrirtækja og faglegrar umsjónar með henni.
 
Starfshópurinn tók til starfa fyrir réttu ári. Í honum áttu sæti Arnar Þór Másson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Þóra M. Hjaltested, skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, og Pétur Berg Matthíasson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu.
 
Starfshópurinn hefur nú skilað forsætisráðherra skýrslu sinni og var hún kynnt á ríkisstjórnarfundi í vikunni. Í kjölfarið mun fjármálaráðherra hafa forgöngu um löggjöf á grundvelli tillagna og ábendinga starfshópsins.
 
Að mati starfshópsins er ekki hafið yfir vafa að jafnræðis og gagnsæis verði gætt við sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum undir því fyrirkomulagi sem ríkt hefur um aðild ráðherranefndar, framkvæmdanefndar um einkavæðingu og Alþingis að sölu ríkisfyrirtækja. Því þurfi að skilja að markmið stjórnvalda með sölu og faglega umsjón með henni.

Starfshópurinn leggur meðal annars til að lögfest verði sérstök ákvæði í tengslum við sölu eignarhluta í fyrirtækjum; ferlinu verði lýst í reglugerð og grein gerð fyrir þeim meginreglum sem fylgja skuli um leið og áréttað er að reglur stjórnsýsluréttarins gildi um málsmeðferð þegar ráðstafað er eignarhlutum í fyrirtækjum sem ríkissjóður á hlut í.
 
Starfshópurinn telur að rétta leiðin til þess að hafa áhrif á sölu fjármálafyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins á eignarhlutum sem þau kunna að eiga í öðrum fyrirtækjum sé að kveða á um slíkt í eigendastefnu. Í eigendastefnu ætti m.a. að skuldbinda fjármálafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins til að birta opinberlega stefnu um sölu eigna, upplýsa um eignasafn sitt og gera árlega grein fyrir því hvernig gengið hefur að framfylgja stefnunni.
 
„Verklagið við einkavæðingu ríkisbankanna fyrir um einum áratug varð afdrifaríkt fyrir þjóðina og hefur verið harðlega gagnrýnt meðal annars í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Við viljum koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og því fagna ég niðurstöðum starfshópsins sem miða að því að tryggja að jafnræðis og gagnsæis verði gætt þegar og ef fyrirtæki í ríkiseigu verða seld í framtíðinni,“ segir forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. „Með gerð þessarar skýrslu er ekki gefið til kynna að á döfinni sé að selja í bráð stórar eignir ríkisins, eins og ráðandi eignarhlut þess í Landsbankanum. En reglur um sölu, einnig á hlut ríkisbanka í einstökum fyrirtækjum, þurfa að vera skýrar. Vítin eru til þess að varast þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert