Alþingi hefur sent fulltrúum stjórnlagaráðs bréf þar sem þeir eru boðaðir á fund fimmtudaginn 8. mars næstkomandi. Þeim sem skipa stjórnlagaráð verður greidd þóknun fyrir störf sín á fundinum „sem samsvarar hlutfallslega þeim launum sem þeir nutu á starfstíma stjórnlaga-ráðs“ eins og segir í þingsályktuninni.
Í bréfinu segir að á fundi Alþingis í fyrradag hafi verið samþykkt að kalla saman að nýju stjórnlagaráð það sem skipað var með ályktun Alþingis 24. mars 2011 og lauk störfum 29. júlí sl.
Samkvæmt ályktun Alþingis er stjórnlagaráði ætlað að koma saman til fundar í fjóra daga í mars nk. Verkefni ráðsins er svo tilgreint í ályktuninni:
„ … að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu, sem og um aðra þætti í frumvarpinu sem ráðinu þykir þurfa. Verði það niðurstaða stjórnlagaráðs að tilefni sé til að gera breytingar á áður fram komnum tillögum skal ráðið skila breytingartillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis eigi síðar en 12. mars 2012.“
Þá segir: „Með bréfi þessu er stjórnlagaráð boðað til fundar fimmtudaginn 8. mars nk. kl. 10 árdegis. Ráðinu er ætlað að ljúka fundi sínum eigi síðar en sunnudaginn 11. mars. Unnið er að því að finna heppilegan fundarstað og verður tilkynnt um hann í næstu viku.
Þeim sem skipa stjórnlagaráð verður greidd þóknun fyrir störf sín á fundinum „sem samsvarar hlutfallslega þeim launum sem þeir nutu á starfstíma stjórnlaga-ráðs“ eins og segir í þingsályktuninni.“
Skrifstofu Alþingis var skv. ályktuninni falið að hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd fundarins og hefur Þorsteinn Fr. Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stjórnlagaráðs, fallist á að halda utan um það verkefni. Áformað er að ráða tímabundið aðra starfsmenn með hliðsjón af óskum sem borist hafa frá þeim sem skipuðu stjórn ráðsins.
Af hálfu skrifstofu Alþingis mun Þorsteinn Magnússon aðstoðarskrifstofustjóri annast samskipti við stjórnlagaráð.
Þess er óskað að fulltrúar í stjórnlagaráði tilkynni um þátttöku sína til með tölvupósti eigi síðar en 2. mars nk.
Undir bréfið skrifar Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.