Stúlka á ellefta aldursári vann mikla hetjudáð í gær þegar hún bjargaði um eins árs barni frá drukknun í Vatnaveröld í Reykjanesbæ. Stúlkan sem var á sundæfingu synti fram á barnið þar sem það var í djúpu lauginni og bjargaði því upp á bakkann.
„Hún hélt fyrst að þetta væri dúkka, en þegar hún áttaði sig á því að þetta var lítið barn synti hún að því og fór með það upp á bakka,“ segir Þórunn Ósk Haraldsdóttir, móðir Aníku Mjallar Júlíusdóttur, tíu ára stúlku, sem bjargaði litla barninu frá drukknun. „Á bakkanum sá hún svo að barnið náði ekki andanum og þá barði hún í bakið á því, þar til það náði djúpum anda. Í sömu andrá komu þjálfarinn og starfsfólk sundlaugarinnar að.“
Að því er mbl.is kemst næst var barnið, stúlka um eins árs, með föður sínum í sundi og voru bæði komin inn í klefa. Þá tók litla stúlkan upp á því að fara aftur út að sundlaug, þar sem krakkar voru á sundæfingu. Hún fór svo frá hliðarbakka ofan í laugina.
Eðvarð Þór Eðvarðsson sundþjálfari segir að Aníka hafi aðeins verið um einn metra frá stúlkunni þegar þetta gerðist. „Hún sýndi snör og flott handbrögð og framdi þarna hetjudáð.“ Litlu stúlkunni varð ekki meint af. Eðvarð segir að þó að vel hafi farið hafi ekki mátt muna miklu.
Eftir björgunarafrekið var strax hringt í Þórunni og hún beðin um að koma þegar í stað og hlúa að dóttur sinni, sem var nokkuð brugðið. „Þetta er erfitt og hvílir aðeins í manni, en svo snýst þetta upp í stolt þegar fram líða stundir,“ segir Eðvarð.
Þórunn bætir við að Aníka hafi verið í hálfgerðu áfalli í gærkvöldi. „En ég sagði henni að þetta væri nákvæmlega eins og alvöruhetjum liði.“ Þórunn hrósar einnig Eðvarði fyrir sín viðbrögð. Rætt hafi verið við hópinn eftir atvikið, og vel haldið á málum.
Hjá forstöðumanni sundlaugarinnar fékkst staðfest að fundað yrði um málið síðar í dag.