Bæjarstjórar þriggja sveitarfélaga á Vestfjörðum taka undir kröfur Austfirðinga um byggingu Norfjarðarganga í yfirlýsingu sem þeir hafa sent frá sér.
„Við undirritaðir bæjarstjórar þriggja sveitarfélaga á Vestfjörðum tökum undir kröfur Austfirðinga um að byggingu Norðfjarðarganga verði flýtt og við hvetjum stjórnvöld til að finna leiðir til að hefja þar framkvæmdir strax á næsta ári.
Við Vestfirðingar þekkjum það betur en flestir aðrir landsmenn hversu nauðsynlegt það er að samgöngur milli byggðarlaga séu öruggar.
Við minnum einnig á nauðsyn þess að tengja saman byggðarlög á Vestfjörðum með Dýrafjarðargöngum. Slíkar vegbætur þurfa að koma strax í kjölfar Norðfjarðarganga.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar."