Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur tekist að bjarga Íslandi og koma í veg fyrir hrun samfélagsins eftir efnahagshrunið, að mati Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Steingrímur var meðal framsögumanna á flokksráðsfundi VG í Reykjavík í gær, föstudag.
Sáttur við árangurinn
Þar sagði hann orðrétt undir lok ræðu sinnar sem nánar er vikið að hér fyrir neðan:
„Eftir þessi þrjú ár sem að við höfum barist við þetta að þá er ég bærilega sáttur við þann árangur sem við höfum náð. Þetta hefur verið erfitt. Því skal ekki leyna. En þegar maður litast um og ber stöðu Íslands saman við útlitið eins og það var á þeim tíma þá er ég sáttur. Ég tel að það hafi náðst mikill árangur á Íslandi og að við séum búin að koma okkur út af hættusvæðinu og að hér sé genginn í garð bati sem var aldeilis ekki sjálfgefið að næðist.
Auðvitað hefðu margir viljað fá hann fyrr og að þetta ætti allt saman að vera miklu auðveldara. En mér finnst þegar við ræðum þessi mál góðir félagar og erum oft upptekin af því sem okkur hefur verið erfitt - og það er skiljanlegt - að þá skulum við samt ekki gleyma hinu. Til þess fórum við í þennan leiðangur ekki síst - jú það var nú að bjarga Íslandi og samfélaginu hér í gegnum þetta eins og vel mögulegt væri og það tel ég að við höfum gert.“
Gos og hrun
Steingrímur vék að þeirri athygli sem Ísland fékk eftir hrunið og gosið í Eyjafjallajökli.
„Núna vekur það verulega athygli að allt í einu eru farnar að koma fréttir frá þessu landi sem umheimurinn man óljóst eftir að væri að fara á hausinn 2008. Og það er kominn hagvöxtur og bati og hlutirnir eru að lagast ... Skuldir margra Evrópuríkja vaxa enn hratt, atvinnuleysi vex og það er samdráttur í hagkerfunum, á sama tíma og okkar skuldasöfnun hefur verið stöðvuð, atvinnuleysið fer minnkandi og hagkerfið er tekið að vaxa... Þannig að ég sé enga ástæðu í sjálfu sér til að væla yfir þessum hluta málsins. Það sem var nú alltaf í mínu huga stærst og mikilvægast í þessu var að koma í veg fyrir að Ísland færi á hausinn, það var að koma í veg fyrir að samfélagið hryndi hérna einhvern veginn saman og koma okkur aftur á lappirnar. Það er að takast,“ sagði Steingrímur og uppskar lófatak.
Óumdeilanlegur árangur
Steingrímur sagði í samtali við mbl.is að ekki væri hægt að deila um árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
„Ég held að menn geti ekki neitað því að það hafi náðst verulegur árangur. Við erum loksins að uppskera af öllu erfiðinu og það er að náðst árangur. Kennitölurnar hér eru flestar að þróast til betri vegar, á sama tíma og því miður þær eru að þróast í öfuga átt í mörgum öðrum ríkjum sem eru að glíma við erfiðleika. Ég brá hér upp samanburði við önnur lönd og ef við tökum hagvaxtarþróunina eru horfur okkar einhverjar þær vænlegustu í Evrópu. Það eru kannski tvö Evrópuríki sem búast við svipuðum eða sama hagvexti og við.
Atvinnuleysi fer hér minnkandi. Það er því miður vaxandi í mörgum Evrópuríkjum. Skuldir margra ríkja eru enn að aukast býsna umtalsvert. En við teljum okkur hafa náð að stöðva skuldasöfnunina. Ég tel að það sé nokkuð ljóst að skuldirnar hafi náð hámarki eða séu að ná hámarki. Þær ættu síðan að geta farið minnkandi sem hlutfall af vaxandi landsframleiðslu. Ég er ekki að tala um að við greiðum skuldastabbann mikið niður í bili en í stækkandi hagkerfi og sem hlutfall af landsframleiðslu mun hlutfallið taka að lækka.“
Eitt og hálft ár liðið frá því botninum var náð
- Hvenær var botninum náð?
„Honum var í rauninni náð á síðari hluta ársins 2010. Þá komst hagkerfið í jafnvægi og samdrættinum lauk að mínu mati á síðustu þrem til fimm mánuðum ársins 2010. Þetta snerist við. Fór kannski ekki hratt af stað [...] ef við tökum meðaltal ársins 2010 [...] förum við úr 4% samdrætti á því ári í 3,5% til 4% hagvöxt á árinu 2011. Það er mjög umtalsverð sveifla,“ segir Steingrímur sem kveðst bjartsýnn á að hagvöxtur muni reynast meiri á árinu 2011 en talið hefur verið.
„Það er þó með þeim fyrirvara að við eigum eftir að sjá betur hvernig síðustu mánuðir ársins þróuðust. Ég geri mér fyllilega vonir um 2,5% hagvöxt á þessu ári. Ég held að ef Guð lofar horfum við fram á metár í sjávarútveginum,“ sagði Steingrímur og tók fram að óvissan varðaði markaðina og hvort verð fyrir íslenskar útflutningsafurðir myndi halda.
Endurmenntunin hjálpar
- Þú minntist á átak stjórnvalda í endurmenntun til handa atvinnulausum. Hvaða áhrif mun átakið hafa fyrir stöðuna á vinnumarkaði?
„Það mun án nokkurs vafa hjálpa. Maður fær þær upplýsingar úr stuðningskerfinu við atvinnuleitendur að það hjálpar þeim að fara á námskeið, nota tímann í menntun eða endurhæfingu. Það greiðir götu þeirra til vinnu. Hlutfall þeirra, sem hafa verið í slíkum úrræðum, sem fær svo vinnu að þeim loknum er býsna hátt. Þannig að það sýnir sig. Vandinn núna er sá að atvinnuleysi mun ekki minnka alveg í takt við hagvöxtinn vegna þess að það má búast við vissri tímatöf í því.
Það er fyrst og fremst vegna slakans sem kom með samdrættinum og hruninu. Þá brugðust margir við með því að minnka yfirvinnu eða minnkuðu starfshlutföll og þegar þetta fer að rétta úr sér byrja menn kannski að fylla í þau skörð. Þeir sem voru komnir í hlutastarf fara í fullt starf og það byrjar kannski að bætast við einhver yfirvinna [...] áður en menn fara svo að nýráða fleiri [...] Atvinnuástandið batnar ekki strax út af þessari tímatöf.“
Atvinnuleysið fari undir 6%-markið í sumar
- Hvernig sérðu fyrir þér þróunina á vinnumarkaði síðar á árinu, til dæmis um hábjargræðistímann?
„Ég vona að við fáum myndarlega minnkun atvinnuleysis með vormánuðum og að þróunin haldi áfram og nýjum ráðningum og störfum fari að fjölga hlutfallslega meira [...] Ég væri alveg til í að sjá atvinnuleysið fara niður fyrir 6% yfir hábjargræðistímann. En þróunin er þrjú ár í röð heldur í rétta átt,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.