Heildarkostnaður sveitarfélagsins Garðs vegna samkomulags um starfslok skólastjóra Gerðaskóla um áramótin síðustu nam tæpum tuttugu milljónum króna. Fulltrúi í minnihluta gagnrýnir málsmeðferðina alla, segir kostnað bæjarfélagsins gríðarlegan og málið allt hið furðulegasta.
Starfslok skólastjórans komu í kjölfar mikillar umfjöllunar um einelti í Gerðaskóla. Rúmlega þrettán prósent nemenda skólans sögðust verða fyrir einelti oftar en 2-3 sinnum í mánuði, en það er næstum helmingi hærri tala en á landsvísu.
Í fundargerð skólanefndar bæjarins frá því í október sagði meðal annars að fyrir einelti mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum gefast upp og leitað yrði allra leiða til að koma þeim málum á rétta braut.
Í desember var svo gengið frá samkomulagi um starfslok Péturs Brynjarssonar, skólastjóra Gerðaskóla. Var bæjarstjóra og lögmanni bæjarins falið að ganga frá starfslokasamningi við skólastjórann sem lét af störfum um áramót.
Bæjarfulltrúar minnihlutans óskuðu í kjölfarið eftir upplýsingum um kostnað vegna starfslokanna og barst svarið á fundi bæjarstjórnar fyrr í þessum mánuði. „Samtals kostnaður vegna starfsloka skólastjórans með launum, tryggingagjaldi, lífeyrissjóði, sjúkra- og orlofsgjaldi og orlofsh.sj. er 17.701.700.- og samanlagður lögfræðikostnaður á árinu 2011 vegna skólamála er 1.896.075.-,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar.
Einnig var lögð fram tilaga um að draga til baka áminningu sem Pétri var veitt í september síðastliðnum vegna brota í starfi. Áminningin var mjög gagnrýnd á sínum tíma og sögðu fulltrúar minnihlutans að verið væri að áminna skólastjórann fyrir að brjóta reglu sem ekki væri til. Ekki var upplýst hvers vegna Pétur var áminntur en áminningin kom til eftir að hann var gagnrýndur fyrir að taka ekki eineltismál nægilega föstum tökum.
Bæjarstjórnin samþykkti að fella áminninguna niður en fulltrúi N-lista óskaði bókað, að honum þætti málið allt með endemum, rökstuðningur enginn og málið í heild sinni hið furðulegasta. „Kostnaður bæjarfélagsins er gríðarlegur og meirihluti bæjarfulltrúa hefur farið offari sem er til skammar fyrir íbúa Garðs.“