Stærð skiptir máli

Höfunar álitsgerðarinnar segja að ólík staða geti skipt máli
Höfunar álitsgerðarinnar segja að ólík staða geti skipt máli mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki er útilokað að sérstök sjónarmið eigi við um öfluga lögaðila hvað varðar fordæmisgildi gengislánadómsins svonefnda sem féll í Hæstarétti nýverið. Þetta kemur í álitsgerð sem lögfræðistofan Lex vann fyrir Samtök fjármálafyrirtækja.

Hins vegar telja lögfræðingar Lex, sem unnu álitsgerðina, að í langflestum tilvikum sé um að ræða lán með skilmálum sem samdir voru einhliða af viðkomandi fjármálafyrirtæki.

Í álitsgerðinni kemur fram að ekki sé hægt að skilja dóminn með þeim hætti að hann hafi ekki þýðingu fyrir lán til fyrirtækja eða annarra lögaðila, séu aðstæður að öðru leyti sambærilegar.

Þá ber að líta til þess að þau sjónarmið, sem Hæstiréttur nefndi og notaði til stuðnings beitingu undantekningarinnar um fullnaðarkvittun, geta að mestu leyti átt við um lögaðila með sama hætti og einstaklinga.

Lögaðilar í sumum tilvikum álíka stórir og fjármálafyrirtækið

Hins vegar telja höfundar álitsgerðarinnar að ólík staða lögaðila og einstaklinga geti skipt máli. „Það er ljóst að í sumum tilvikum er stærð og staða lögaðila slík að hann stendur því sem næst jafnfætis fjármálafyrirtækinu við samningsgerð og hefur eftir atvikum komið að gerð lánaskilmála.

Ástæða er til að láta reyna sérstaklega á slík tilvik þar sem tekið er berum orðum fram í dóminum að þetta sé atriði sem skipti máli,“ segir í álitsgerðinni.

Jafnframt er ljóst, að sögn höfunda álitsgerðarinnar, að sú röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara sem felst í viðbótarkröfu um vexti vegna liðins tíma kann að koma misharkalega niður á einstaklingum annars vegar og lögaðilum hins vegar.

„Hins vegar teljum við að vægi þessarar röskunar verði ætíð að meta með hliðsjón af aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig og að flokkun á milli einstaklinga og lögaðila ráði þar ekki úrslitum,“ segir í álitsgerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert