Tilkynntar voru tvær líkamsárásir í miðborginni í nótt en mikill erill var hjá lögreglu í nótt vegna útkalla sem tengdust hávaða og ölvun á höfuðborgarsvæðinu.
Um tvöleytið var tilkynnt líkamsárás við veitingastað við Laugaveg milli tveggja manna og dyravarðar.
Klukkan rúmlega fjögur var síðan tilkynnt líkamsárás við veitingahús í Bankastræti en þar hafði maður verið sleginn í andlitið. Maðurinn, sem var í mjög annarlegu ástandi vildi ekki aðstoð áhafnar sjúkrabifreiðar. Þegar lögreglumenn kynntu manninum að ekkert yrði frekar gert í málinu að svo stöddu fór maðurinn að atast í lögreglumönnum og hóta þeim. Var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var síðar vistaður í fangageymslu vegna ástands síns, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Tilkynnt var að maður hefði slasast við að falla niður stiga á veitingahúsi við Bankastræti á fimmta tímanum í nótt. Maðurinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið en ekki er vitað um hve alvarleg meiðsl hans voru.
Ökumaður bifreiðar var stöðvaður á Dvergabakka á fjórða tímanum í nótt en hann er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, án ökuréttinda, á ótryggðu ökutæki og vera með röng skráningarnúmer (tvö ósamstæð númer) á bifreiðinni. Maðurinn látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku en lögregla fjarlægði einnig númerin af bifreiðinni.
Lögregla stöðvaði mann við akstur bifreiðar í Fjarðarhrauni í Hafnarfirði klukkan 3.22 í nótt. Grunur var um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk þess sem hann ók um á vanbúnu ökutæki. Ökumaður var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.
Maður var stöðvaður við akstur bifreiðar á Sæbraut grunaður um ölvun við akstur klukkan 4.14 í nótt. Hann var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.
Á sjötta tímanum í morgun var kona stöðvuð við akstur bifreiðar á Geirsgötu grunuð um ölvun við akstur. Hún var látin laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.