Fellir enga dóma gagnvart gyðingum

Stofnun Simon Wiesenthals í Los Angeles vill meina að 50 …
Stofnun Simon Wiesenthals í Los Angeles vill meina að 50 dæmi séu um gyðingahatur í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar.

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, telur hugmyndir stofnunar Simons Wiesenthals um að gyðingahatur sé að finna í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar algjöra vitleysu.

Fram kemur á bloggsíðu Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar að stofnunin hafi sent Páli Magnússyni útvarpsstjóra bréf þess efnis. Bréfinu fylgja 50 dæmi um vísanir til gyðinga í sálmunum. Stofnun var sett á laggirnar eftir síðari heimsstyrjöld og meginhlutverk hennar er að leita uppi gyðingahatur og mótmæla því.

Páll segir í samtali við Morgunblaðið í gær að honum hafi ekki borist bréfið og því hafi ekki verið tekin afstaða til innihalds þess, en að sögn Vilhjálms Arnar hafa forsvarsmenn stofnunar Simons Wiesenthals tvísent það.

Margrét  er ekki á sama máli og bréfahöfundar. „Hallgrímur rekur píslarsöguna í sálmum sínum og bendir á spillta yfirmenn og presta og ýmis ill verk og vísar svo í samtíma sinn og veltir því upp hvort samtíðarmenn sínir séu nokkru skárri.“

Allar vísanir í gyðinga séu aftur á móti bundnar við fortíðina í sálmunum. „Gyðingar í sálmunum eru alltaf gyðingar á dögum Jesús. Hallgrímur fellir hvergi dóma gagnvart gyðingum á samtíma sínum. Engin saga er heldur fyrir því að gyðingahatarar hafi notað sálmana í neikvæðum tilgangi.“

Rangtúlkun

Margrét segist þó bera virðingu fyrir stofnuninni og þess vegna sé leiðinlegt að hún sjái ástæðu til að beina kröftum sínum í þessa átt. „Mér finnst þetta fyrst og fremst langsótt og hreinlega vera rangtúlkun á Passíusálmunum og útúrsnúningur.

í bréfi stofnunarinnar til Páls Magnússonar kemur fram að „sá siður að virtir íslenskir borgarar lesi sálmana á opinberum vettvangi eins og í útvarpssendingum ríkisútvarpsins ýti undir gyðingahatur og eitri áhrifagjarnar framtíðarkynslóðir með hatursfullum hugmyndum um staðalímyndir gyðinga.“ Þeir mælast til þess að sálmarnir verði undir eins teknir af dagskrá RÚV og aldrei fluttir þar aftur.

Fyrir bréfinu er skrifaður rabbíninn Abraham Cooper og þar kemur fram að sendiherra Íslands í Washington, Guðmundur Árni Stefánsson, fær sent afrit af bréfinu. Bréfið í heild má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka