Forsendur fyrir gengisstyrkingu

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Sigurgeir

„Þetta er svo sem eins og búist var við að það kæmi verðbólgukúfur núna og hann hjaðnaði örlítið á milli mánaða. Engu að síður er 12 mánaða verðbólgan yfir 6 prósent og það eru ýmsir þættir sem að verka þar í, bæði veiking gengisins og hátt olíuverð og fleira,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra um versnandi verðbólguhorfur.

„En síðan eru náttúrlega inni í meðaltalinu óhagstæðir mánuðir frá fyrra ári og við gerum okkur vonir um að það fari að hjaðna á næstu mánuðum.“

Sagði Steingrímur allar spár ganga út á það. „En þetta er engu að síður áhyggjuefni og í raun þyrfti hvorutveggja að gerast að gengið snérist við og færi að styrkjast, enda eiga nú að vera allar forsendur fyrir því og að það dragi úr þessum hækkunum á ýmsum hrávörum sem að eru að þrýsta verðlaginu upp.“

Hann sagði gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og ríkisins komnar inn í mælinguna. „Þannig að vonandi leggst eitthvað með okkur í þessu á næstu mánuðum og þá á verðbólgan að geta hjaðnað aftur,“ sagði Steingrímur.

Ekki bjartsýnn á að hægt sé að lækka álögur á eldsneyti

Aðspurður um hvort til greina komi að lækka álögur á innfluttar hrávörur til að vinna á verðbólgunni sagði Steingrímur: „Það verður náttúrulega að skoðast, annarsvegar í því ljósi hvort menn gera sér einhverjar vonir um hvort tímabundið ástand sé að ræða eða ekki. Þetta var rækilega skoðað í fyrra varðandi bensín og olíuvörur og það eru því miður ekki líkur á því að þetta verði tímabundið, þvert á móti búa allar þjóðir sig undir að þetta verði viðvarandi ástand og verð á jarðefnaeldsneyti verði hátt og jafnvel hækkandi inni í framtíðinni.“ Hann sagði ekki hægt að leyfa sér að líta svo á hægt væri að grípa til einhverra skammtíma ráðstafana og að hafa yrði í huga áhrifin af slíku á tekjur ríkisins og annað.

„En að sjálfsögðu hafa menn áhyggjur af þessu ef þessi ósköp halda áfram að ganga í öfuga átt. Þá held ég að auðvitað komi á einhverjum tímapunkti að því að menn verði að spyrja sig að því hvað verði að gera,“ sagði Steingrímur og segir að stíga verði varlega til jarðar í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert