Frumvarpið kostar 13 milljarða

Mörður Árnason
Mörður Árnason mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ef frumvarp þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að lækka álögur á eldsneytisverð verði að lögum kosti það ríkissjóð 13 milljarða króna. Þetta kemur fram á bloggi Marðar á Eyjunni.

„Athyglisvert frumvarp hjá Tryggva Þór Herbertssyni um verð á bensíni og olíu. Frábært ef það væri hægt að hafa Tryggva Þór bara á vaktinni að fylgjast með verðsveiflum á mörkuðunum og segja fyrir um hækkun og lækkun á allskyns vöru sem almenningur og fyrirtæki á Íslandi þurfa að kaupa. Þegar hann sér fyrir tímabundna hækkun lætur hann okkur vita og við lækkum á vörunni allskyns skatta og gjöld, en hækkum aftur á móti þegar Tryggvi Þór telur að alþjóðamarkaðir séu að lækka verð að ósekju.

Tillagan um eldsneytislækkun 1. apríl fram að áramótum frá þeim Tryggva Þór, Árna Johnsen og fleiri sjálfstæðismönnum á alþingi hefur að vísu ákveðna galla. Í fyrsta lagi kostar það ríkissjóð talsvert fé sem ekki er til, um það bil 13 milljarða er mér sagt, vægilega áætlað. Þessi upphæð mundi þá bætast við hallann á ríkissjóði, minnka bolmagn til að greiða niður skuldir (hrunið, muniði!) og þess vegna auka vaxtareikninginn á okkur sjálf og börnin okkar næstu ár og áratugi, = hærri skattar.

Svo er líka ákveðinn galli að ekki er hægt að treysta því alveg 100 prósent að bensín og dísilolía lækki aftur 1. janúar 2103. Tryggvi Þór segir okkur að vísu að verðhækkunin undanfarið sé bara tímabundin. Hún stafi annars vegar af óróa í Arabíu og hinsvegar af óvenjulegum vetrarkuldum á meginlandi Evrópu. Og auðvitað er langlíklegast að þetta verði allt búið um næstu áramót,“ skrifar Mörður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka