„Þessi fundur þjónaði ekki þeim tilgangi sínum að skapa umræðu um framtíð flokksins. Flokkurinn hefur verið í lægð og fylgið farið minnkandi í skoðanakönnunum. Þetta var því gott tækifæri til að þétta raðirnar í flokknum og ræða opinskátt um álitamál. Það tækifæri var ekki nýtt,“ segir Gísli Árnason, formaður Vinstri grænna í Skagafirði, um álit sitt á nýloknum flokksráðsfundi VG.
Gísli bar upp tillögu um breytta dagskrá svo ræða mætti stöðu flokksins. Henni var hafnað.
Gísli bendir á að innan við helmingur flokksráðsfulltrúa „hafi séð ástæðu til að mæta á fundinn“. Hinu beri að fagna að Ögmundur Jónasson krefjist ESB-kosningar.
„Mörgum okkar á landsbyggðinni finnst sem tillagan komi seint fram. Það er eins og andstaðan við aðild á meðal flokksmanna sé meiri á landsbyggðinni en í þéttbýlinu. Það þarf að koma aðildarumsókninni frá. Flokkurinn getur ekki farið í næstu kosningar nema þetta sé á hreinu.“
Spurður hvort fundurinn hafi fært félagana úti á landi nær flokksforystunni segir Ölver Guðnason, fyrrv. meðstjórnandi hjá VG á Austurlandi, að hann geti ekki séð það.
„Sárast þykir mér að horfa upp á þá sem hafa átt erfitt og hafa reynt að standa sig. Það er troðið á fátæka fólkinu,“ segir Ölver.