Á sjöunda tímanum í morgun var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kölluð út í Hrafnshóla vegna heimilisofbeldis. Þar hafði karlmaður gengið í skrokk á sambýliskonu sinni en tólf ára gamalt barn var á heimilinu.
Lögreglan handtók manninn og færði hann í fangageymslu þar sem hann er vistaður.
Um níuleytið í gærkvöldi var lögregla kölluð að Asparfelli. Þar hafði fyrrverandi sambýlismaður brotið upp útidyr að íbúð sinnar fyrrverandi. Hann var handtekinn, verulega ölvaður, færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa. Verður rætt við hann er af honum rennur.