„Ég er auðvitað þeirrar skoðunar eins og fleiri að hafa óskað að ferlið hefði gengið hraðar fyrir sig og að við fengjum niðurstöðu um það innan kjörtímabilsins. Hitt er svo annað mál að þetta eru samningaviðræður og þær verða að hafa sinn gang. Þeim lýkur þegar þeim lýkur,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, um þá kröfu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að kosið skuli um ESB-aðild innan árs.
Til vara gerir Ögmundur kröfu um að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu fari fram samhliða alþingiskosningunum vorið 2013.
„Ég tel eðlilegt að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild fari fram þegar samningaviðræðum er lokið. Ég tel að það gangi ekki að segja það núna að atkvæðagreiðslan þurfi að fara fram á einhverjum tilteknum degi. Frá mínum bæjardyrum séð hefði verið best að þessu lyki sem fyrst. Þar er hins vegar ekki aðeins við ESB að sakast heldur hefur ýmislegt tafist af okkar völdum hér heima,“ segir Árni Þór.