Ekki um lögreglurannsókn að ræða

Mótmæli við Austurvöll.
Mótmæli við Austurvöll. Júlíus Sigurjónsson

Lögregla höfuðborgarsvæðisins er ekki með til rannsóknar mótmælin á Austurvelli í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008. Hins vegar er Geir Jón Þórisson að taka saman fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um aðkomu lögreglunnar. Þetta segir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is, sendi Stefáni Eiríkssyni, lögreglustjóra, fyrirspurn vegna frétta af ummælum Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns, um að einstakir þingmenn hafi stýrt mótmælunum á Austurvelli.

Á mbl.is í gær var haft eftir Geir Jóni að hann stefni á að skila skýrslu til lögreglustjóra um aðgerðir lögreglunnar í tengslum við mótmælin. Stefán segir þetta gert að sinni beiðni. „[Það er] engin rannsókn í gangi, hvað þá lögreglurannsókn. Geir Jón er að minni beiðni að taka saman fyrirliggjandi gögn og upplýsingar hjá okkur um aðkomu lögreglunnar að þeim mótmælum sem orðið hafa í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá hruni bankanna í október 2008.“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir í Morgunblaðinu í dag, að ásakanir Geirs Jóns séu „grafalvarlegar og það bætir ekki úr skák að frambjóðandi til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins skuli koma þeim í fjölmiðla.“

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur svo skrifað lögreglustjóranum, bréf og óskað eftir gögnum um málið.

Stefán svaraði því ekki hvort eðlilegt þyki að yfirlögregluþjónn tjáði sig um niðurstöður skýrslu sem verið sé að vinna, og áður en hún er fullgerð. „[En] markmiðið með þessari vinnu er að taka saman fyrirliggjandi gögn og upplýsingar hjá embættinu sem varða skipulag, framkvæmd og úrlausn einstakra verkefna sem tengdust mótmælunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert