Forsetinn: Ábyrgðarlaust að skapa tómarúm

Ólafur Ragnar Grímsson tekur við áskorun um að bjóða sig …
Ólafur Ragnar Grímsson tekur við áskorun um að bjóða sig fram aftur til embættis forseta Íslands 27. febrúar 2012. mbl.is/Árni Sæberg

„Það væri tómarúm sem hvorki ég né aðrir gætu leyft mér að láta myndast,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag um þá óvissu sem upp gæti komið í íslensku þjóðlífi ef forseti landsins hyrfi af vettvangi á óvissutímum.

Hann kvaðst hafa gefið afdráttarlaust upp að hann sæktist ekki eftir endurkjöri í nýársávarpinu en að síðan hefði mikið vatn runnið til sjávar.

„Það sem er breytt í dag er það að þó að ég hafi sagt það alveg skýrt að niðurstaða mín væri á þann veg sem ég lýsti í ávarpinu - og sem betur fer skildu æði margir alveg, réttilega ávarpið á þann veg, eins og bæði blaðagreinar um ummæli ýmissa manna í fjölmiðlum segja. Og eins og mér fannst ágætlega orðað hjá einum góðum manni að menn hefðu verið svo uppteknir af því að lesa milli línanna að þeir hefðu gleymt að lesa línurnar.

Að einhvern veginn - eins og Guðni Ágústsson sagði hér fyrir hönd þessa hóps inni hér áðan og fjölmargir hafa sagt við mig í samtölum, bæði fyrir áramót og svo eftir áramót, er höfðað til þess að ef líka skapast óvissa um forsetaembættið á næstum mánuðum og misserum og enginn veit hvernig sú vegferð kynni að fara, þá væri ekki á bætandi, miðað við óvissu um stjórnskipun lýðveldisins, stöðu okkar í samfélagi þjóðanna, deilurnar um fullveldisrétt Íslands og líka það vantraust sem er gagnvart Alþingi, stjórnmálaflokkum og ýmsu öðru, það væri tómaróm sem hvorki ég né aðrir gætu leyft sér að láta myndast.

Og það hefur komið mér á óvart hvað þunginn í þeirri umræðu og þeim kröfum gagnvart mér hefur verið mikill. Ég átti satt að segja von á því þegar ég væri búinn að lýsa minni afstöðu - jú, jú - að þá myndu margir segja að þeir vildu gjarnan að ég héldi áfram en svo myndi myndast sjálfstætt ferli þar sem menn færu að huga að öðrum framboðum og fjölmiðlarnir - og ég þakka fyrir það - tóku myndarlegan þátt í því með því að leiða fram á völlinn allskonar einstaklinga og gefa fólki kost á því að meta þá stöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert